Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ingjaldur á Kálfaströnd

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Ingjaldur á Kálfaströnd

Ingjaldur hét maður við Mývatn, máske á Kálfaströnd. Hann var hið mesta kallmenni. Það bar til einhverju sinni að Ingjaldur gekk að heiman þar um fjöllin og þó ekki langt. Var hann fullu dægri lengur burtu en von var til; síðan kom hann heim og var dasaður mjög, en þó óskaðaður. Var hann þá spurður hvað hann hefði dvalið, en hann vildi þar lítið frá segja. En það skildu menn að hann hefði ekki alla tíð verið á gangi eða slitið á göngu skóm sínum sem hann var búinn að troða sundur svo skóvörpin vóru um öklana, en það höfðu verið nýir leðurskór þegar hann fór heiman. Var það á þessu auðséð að hann hafði við eitthvað fengizt enda skildu menn það á honum þó ekki segði hann greinilega af ferðinni, og haft var það fyrir satt að hann hefði átt við tröll og á því troðið skóna annaðhvert í áflogum eða með því að losa grjót til að lemja tröllið með, en aldrei varð vart við tröllagang við Mývatn upp frá þessu.

Sú saga hefur verið sögð við Mývatn svo sem dæmi upp á hreysti þessa Ingjalds að hann hafi einu sinni verið staddur á Húsavík og áttust þeir kaupmaður illt við, en kaupmaður hafði ekki við. Heitaðist hann þá við Ingjald og sagði það væri illt ef hann skyldi ekki hafa pilt að lofa honum að reyna sig við annað sumarið. Leið svo til þess næsta sumarið, þá kom Ingjaldur út í Húsavíkurkaupstað og fór að höndla við kaupmann og leysti upp vörubagga sína hvar á meðal var tíu punda smjörbiti. En þegar hann var að taka utan af smjörbitanum kemur þar að honum blámaður voðalega stór og ljótur og æddi hann að Ingjaldi með gapandi kjafti. En Ingjaldi varð það að ráði að hann hljóp móti blámanninum með smjörbitann og kastaði að honum, en hann tók við með kjaftinum. Hljóp þá Ingjaldur að honum og sló öðrum fæti milli fóta blámanni svo hann skall flatur á bak aftur. Hljóp þá Ingjaldur ofan á hann og tók fyrir kverkarnar; kom þá kaupmaður að og bað Ingjald drepa ekki blámanninn, „því ef hann er drepinn í minni þjónustu,“ mælti hann, „kostar mig það afar mikið fé, og vil ég láta þig hafa ærna peninga fyrir líf hans.“ Gjörði þá Ingjaldur það að bón hans og galt kaupmaður honum töluverða peninga fyrir það, og er ekki getið hann hafi útvegað fleiri að glíma við Ingjald.