Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jólanótt á Reyðarvatni

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Að Reyðarvatni kom maður á aðfangadagskvöldi og beiddist gistingar. Honum var veitt það, en fólkið sagði þar reimt og það færi burtu ætíð á jólanóttina. Hann kveðst eigi kæra sig. Það fer burtu; hann skoðar sig um, tekur úr þilju eina og fer þar á bak við og horfir út. Tveir strákar koma inn, sjá þar hund og drepa hann, lýsa um allt og sópa, fara út aftur og koma með borð, setja fram ljós, breiða dúka, bera inn mat. Síðan kemur mikill skari af mönnum og þar eru brúðhjón. Þau eru gift, það fer að syngja. Hann skilur ekkert nema þetta:

„Við allir lofum þann eðla kóng í undirbing.“

So er verið að senda strákana út hvort ei sé kominn dagur; þeir segja alltaf nei þangað til maðurinn sér að dagur er kominn. Hann hleypur þá fram og kallar: „Dagur, dagur!“ Það stekkur út, hann eltir það ofan að einu vatni, það hleypur þar út í, en hann náði skikkjunni af brúðurinni, gengur heim, tekur til snæðings og sýnir fólkinu þegar það kom heim. Og síðan hefur aldrei orðið vart við þetta fólk á þeim bæ.