Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jómfrú Guðrún

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á Hömrum í Laxárdal í Strandasýslu bjó einu sinni bóndi nokkur sem Jón hét; hann átti konu sem Guðrún hét. Þau áttu lítið bú og laglegt og stjórnuðu því með ráðdeild. Ekki áttu þau börn nema eina dóttur sem Ingibjörg hét. Hún var stór vexti – eftir aldri – fríð sýnum og hið efnilegasta barn. Þegar hún hafði þrek til þá fóru foreldrar hennar að nota hana til að reka kýrnar og sækja þær á málum. Ekki er þess getið hvað kýrnar voru margar, en á meðal þeirra var ein grá að lit. Hún var svo stórvaxin að enginn þeirra manna sem hana sá hafði séð aðra eins stóra; og eftir því voru horn hennar. Það var og í almæli að hvergi í vesturfjórðungi landsins – og jafnvel ekki á öllu landinu – væri eins væn kýr að öllum kostum. Hún var snemmbær á hverju hausti og komst jafnast í fimmtán og sextán merkur á básnum og eins á sumrum þegar grös voru fullgróin. Eftir þessu var mjólk hennar kostmikil og svo heilnæm að það var haft fyrir satt að hún mundi drepa eitur og margs lags ólyfjanir.

Það bar til einn föstudagsmorgun þegar Imba litla kom með kýrnar á kvíabólið þá sér hún hvar kemur dálítill drengur á utanvert kvíabólið. Hann var í litklæðum og með bjart hár á höfði. Með honum var grár hundur loðinn og svo stór að Imba litla hafði aldrei séð annan eins hund. Þegar Stóragrána sá hundinn þá hljóp hún bölvandi af stað til að elta hann, en við það snéri drengurinn og hundurinn aftur. Imba litla ætlaði þá að fara að elta Stórugránu, en í því kemur móðir hennar á kvíabólið, kallar til hennar og segir: „Vertu ekki að elta hana, hún kemur sjálf aftur.“ Hún fór svo að mjólka hinar kýrnar, en þegar hún var að enda við það þá kemur Stóragrána aftur eins og hún hafði búizt við. Þegar hún er komin gengur konan til hennar, klappar henni, tekur undir hana og segir: „Það er lítið í þér núna, garmurinn.“ „Hvað kemur til þess, mamma?“ segir Imba litla. „Ég veit það ekki, tetrið mitt,“ segir móðir hennar; „hún hefur líkast til lekið sig á hlaupunum.“ Ekki vissi Imba litla hvert móðir hennar hafði séð drenginn og hundinn, en þó hélt hún að henni þækti þetta ekki svo undarlegur tilburður.

Um kveldið bar ekkert til tíðinda. En á laugardagsmorguninn fór á sömu leið sem hinn fyrra morguninn, að drengurinn kom með hundinn og Stóragrána hljóp og kom þurmjólkuð aftur; en konan hafði engin orð um það.

Næsta sunnudag eftir ætluðu hjónin að ríða til Prestsbakkakirkju og vinnumaðurinn með þeim. Það var sjálfsagt eyrindi þeirra að heyra guðsorð, en þar að auki var konan ættuð úr Prestsbakkasókninni og átti þar margt af skyldfólki og kunningjum sem hana langaði til að finna. Hún hafði því fengið stúlku af næsta bæ til að vera sér til aðstoðar heima á sunnudaginn. Um morguninn var gott veður og fólkið vaknaði snemma. Bóndinn fór þá að stanga móttak í söðulinn konu sinnar og gjöra við reiðann sinn; konan fór að búverka og aðkomustúlkan með henni; vinnumaðurinn fór að sækja hestana, vinnukonan að sækja ærnar og Imba litla að sækja kýrnar. Þegar hún kom með þær að kvíunum þá kemur drengurinn með gráa hundinn og Stóragrána hleypur af stað eins og fyrri. Imba litla hugsar sér nú til hreifings að hún skuli vita hvernig á þessu standi því nú var ekki móðir hennar til að hindra hana. Hún hleypur því sem fætur toga og þykist vera að elta kúna; en reyndar var umhyggja hennar að ná í drenginn. Hún hélt svo beinni stefnu á hann, en þegar hún var nærri komin að honum þá gekk hann nokkur spor úr stefnu hennar og ætlaði henni að hlaupa áfram og hélt hún mundi ekki sjá sig. En hún brá sér til hliðar, greip í treyjuna hans og mælti: „Á! Þú varaðir þig ekki við mér, litli drengur, og sæll vertú!“ „Komdú sæl,“ segir hann og síðan kysstust þau. Eftir það spyr hún: „Hvað heitir þú?“ „Ég heiti Baldvin,“ segir drengurinn, „og á heima hérna skammt í burt. Viltú ekki koma með mér til að sækja hana Stórugránu?“ „Jú,“ segir Imba litla og því næst ganga þau bæði saman. Baldvin gekk á undan og stefndi þar að sem Imbu litlu sýndist vera klettar einir, en þegar þau nálægðust hæðina sá hún að þetta var laglegur bær. Þau námu staðar á kvíabólinu og þar sá Imba litla konu eina vera að mjólka Stórugránu. Þegar hún var búin gengur Imba litla til hennar og heilsar henni. Hún tók vel kveðju hennar og mælti síðan: „Ég held þér þyki ljótt að sjá til mín – sem von er; þetta voru neyðarúrræði og ég skal segja þér hvernin á stóð fyrir mér:

Hérna einhvers staðar á bak við hæðirnar býr einn gamall bóndi. Hann á fullorðinn son sem giftist í haust eð var og vill nú fara að byrja búskap á næstkomanda nýári, því það er bæði bændafardaginn og hjúaskildaginn okkar hérna, aðfaranóttin nýja ársins. Þessi nýgifti bóndason kom hérna fyrir stuttu og á annan bæ sem er skammt í burt; það eru hvort tveggja erfðajarðir hans eftir móðirina. Nú vill hann sjálfsagt fá aðra hverja jörðina til ábýlis, en vegna þess að hvorugur bóndinn vildi fara þá varð það úrskurður jarðaeigandans að hvor þeirra sem fyrri yrði að færa sér leigurnar skyldi mega sitja kjur.

Næsta morguninn eftir að hann var hér á ferðinni hafði nágrannakonan okkar látið smalann sinn taka tólf ær frá okkur og þar voru þær mjólkaðar. Þetta var nú töluverður halli fyrir okkur því mjög er líkt um mjólkurpeningsfjöldann á báðum bæjunum; en smalinn okkar gat blessunarlega bætt úr þessum skaða því nóttina eftir náði hann tuttugu og fjórum ám frá hinu hyskinu og þær voru allar mjólkaðar hérna; það eru líka gömul lög hjá okkur hérna að taka það stolna tvöfalt aftur.

En til að eiga það víst að maðurinn minn gæti orðið fyrri til að skila leigunum en hinn bóndinn þá neyddist ég nú til að ræna henni Stórugránu frá henni mömmu þinni í þeirri von að hún fyrirgæfi mér það; en ég vissi að mig munaði um dropann úr henni þó ekki væri nema í þrjú mál.“

Að lokum þessa viðtals gengur konan heim að bænum, segir þeim Baldvin og Imbu litlu að koma með sér. Þau námu staðar við bæjardyrnar, en konan gekk inn og kom út aftur að vörmu spori og gaf þeim hálfa flatköku hverju með smjöri á og sagði við Baldvin: „Þú mátt fylgja henni Imbu litlu með hana Stórugránu ef þú vilt.“ „Já,“ segir Baldvin og síðan fara þau. Þegar þau eru komin nokkurja faðma frá bænum mætir þeim stúlka sem kom af kvíunum og bar tvær fötur með ásauðamjólk í. Hún leit brosandi til Baldvins og sagði: „Þú ert þá búinn að fá stúlku þér til skemmtunar, Baldvin litli!“ „Já,“ segir hann, „þó það sé nú ekki nema um stund.“ Þau héldu svo áfram ferð sinni með Stórugránu þar til þau komu á kvíabólið á Hömrum. Ekki er þess getið hvað þau töluðust við á leiðinni, en áður en þau skildu segir Baldvin: „Komdú nú til okkar í dag Um leið [og] þú rekur kýrnar og vertú stundarkorn mér til gamans.“ „Já,“ segir Imba; „mér þækti líka gaman að koma og sjá bæinn að innan og annað þvílíkt.“ Síðan kysstust þau fast og Baldvin snéri heim á leið, en Imba litla stóð og horfði eftir honum þangað til hún heyrði að sagt var skammt frá henni: „Á hvað ert þú að horfa Imba litla?“ Þar var þá komin afbæjarstúlkan sem áður var um getið og hélt á fötum og ætlaði að fara að mjólka kýrnar. „Ég er að horfa á dálítinn fugl,“ sagði Imba; „ég hugsaði að hann hefði kannske átt þarna egg, en það hefur ekki verið því hann flaug núna langt í burt.“ „Foreldrarnir þínir beiddu kærlega að heilsa þér og hann Bjarni,“ segir stúlkan; „það er nú allt saman farið og þú verður nú að fara heim til að borða á meðan við Steinunn erum að mjólka ærnar og kýrnar.“

Hún gjörir þá svo. En þegar þær komu heim með mjólkina og fóru að hella í trogin kemur Imba litla til þeirra og segir: „Var ekki lítið í henni Stórugránu, Helga?“ „Ojú,“ segir stúlkan, „hún mamma þín bjóst nú líka við því.“ „Ég ætla að biðja ukkur að undrast ekki um mig þó ég verði lengi að reka,“ segir Imba, „því ég ætla að reyna til að fá mér ögn af berjum.“ „Já, það er gott,“ sögðu þær, „þá fáum við ber þegar þú kemur aftur.“

Hún flýtti sér það sem hún gat að reka og hljóp svo eftir megni þar til hún nálægðist klettana, og var þá eins og þunnur þokublær hefði hvorfið af þeim fyrir augum hennar því nú voru þeir orðnir að bæ, og það sem mest jók fögnuð hennar var að hún sá Baldvin sitja úti og horfa í móti sér. Þegar hún átti fáa faðma til hans stóð hann upp, hljóp í móti henni og nú heilsuðust þau mjög vinalega. Því næst fór hann að sýna henni ýmislegt meðal hvers voru litlu húsin hans og búið yfir höfuð, með öllu sem því tilheyrði. Þar eftir leiddi hann hana í bæinn og inn í baðstofu. Hún heilsaði fólkinu einarðlega og litaðist um. Þrjú stafgólf voru í baðstofunni og sinn gluggi á hvorjum stafni og einn gluggi á hlið. Í öðrum endanum var hjónarúmið til hliðar og dálítið rúm fyrir stafninum sem Baldvin svaf í og þverhilla ofan til við gluggann; á henni voru bækur, smástokkar og annað þvílíkt. En á móti hjónarúminu var lítil kista, kistill og stóll. Hjónastafgólfið var afþiljað, en hurðarlaust. Fyrir framan þilið var rúm til sömu hliðar sem hjónarúmið; þar í var móðir bóndans, en uppgangurinn á móti. Í hinum endanum voru rúm hvort á móti öðru; í þeim voru vinnuhjúin.

Þegar Baldvin hafði sýnt henni flest sem uppi var fóru þau ofan. Þar var afþiljað hús í sama endanum sem hjónastafgólfið uppi. Baldvin lauk því upp og sýndi henni. Þar var og stafngluggi og borð undir. Til annarar hliðar var rúm nokkuð skrautlegt með léreftsvoðum og yfirsæng og sparlaki; þar á móti voru tvær kistur grænleitar og hilla upp yfir þeim með leirskálum, spilkomum og diskum. Þilgólf var í húsinu og grænleit hurð fyrir. En fyrir framan þilið voru baðstofudyrnar annars vegar og gluggi á móti, en í hinum endanum var vefstóll og glugginn á stafninum, en fyrir framan baðstofudyrnar var búr og eldhús sitt á hvorja hönd. Þar fyrir framan var á aðra hönd skáli, en hinumegin skemma eða, með öðrum orðum, mjólkurhús og geymsluhús. Þeim börnunum dvaldist lengi fram eftir deginum við þessa skoðun sem var langtum meiri og nákvæmari en hér verður frá sagt.

Eftir það fóru þau út. Logn og blíða var úti og glatt sólskin. Hinar blómfögru hlíðar blikuðu við sólargeislanum, fuglarnir kvökuðu og flugurnar sungu. Túnin voru algróin og hinir ljósrauðu fíflar orðnir að gráhærðum bifukollum. Ekki verður frá því sagt hvað börnunum þókti skemmtilegt að leika sér úti og ekki vissu þau hvað tímanum leið fyrri en vinnukonan kom út til þeirra og kallaði þau að koma inn til að borða. Baldvin leit upp og undraðist er hann sá að nón var komið. Síðan gengu þau inn og var þá búið að bera á borð fyrir þau heitar ertur með smjöri. Þegar þau höfðu matazt sagði konan til Imbu: „Ég þori nú ekki annað en þú farir að halda heim því fólkið fer að undrast um þig. Hann Baldvin getur gengið á leið með þér.“ Imba litla fór þá að kveðja og síðan gengu þau Baldvin af stað. Þá segir Imba: „Þegar ég fór að heiman þá gjörði ég ráð fyrir að tína ber, en nú er ég ekkert berjablá.“ „Það er hægt að gjöra við því,“ segir Baldvin; „við skulum tína dálítið snöggvast og með því getur þú gjört þig berjabláa.“ Síðan tíndu þau svo sem hálfan vettling og Imba néri því framan í sig og um hendurnar á sér og þó varð nokkuð eftir í gripanum. Síðan héldu þau áfram þar til þau komu að túninu á Hömrum; þá kvöddust þau með föstum kossi og ráðgjörðu að finnast aftur þegar færi gæfist á. Imba litla hélt svo heim til bæjarins. Fólkið fagnaði henni vel og sagði hún hefði verið furðu lengi, enda væri líka auðséð að hún hefði smakkað ber.

Nú bar ekkert til tíðinda um sumarið nema hvað þau Baldvin og Imba hittust stöku sinnum – þó ekki verði hér sagt frá viðræðum þeirra. Þó var það einu sinni þegar Imba kom til klettabúanna á sunnudegi þá var þar enginn heima nema vinnukonan. Imba spurði hana hvar fólkið væri. Hún sagði það hefði farið til hofs – „eða sem þið kallið kirkju“. Imba litla gengur svo inn með henni og sezt á Baldvins rúm og biður stúlkuna að ljá sér bók til skemmtunar. Hún tekur þá bók ofan af hillunni og fær henni. Þetta voru þá biblíusögur. Imba var allvel lesandi og fór að þylja af kappi.

Það sem hún mundi síðar af innihaldi bókarinnar er hér eftirfylgjandi:

Vér vissum ekki fyrri af að segja en að einhver guðleg vera (karlkyns) réði fyrir heiminum og stjórnaði honum; ekki vitum vér nafn hans og ekki um giftingu hans, en tvö börn hafði hann átt, son og dóttur; sonur hans hafði dáið þegar hann var nýlega fullorðinn, en dóttirin lifir enn og hefur nú einvaldsdæmi yfir öllum heimi og er almennt kölluð forlagadís. Á meðan faðir hennar lifði – sem var hér um bil í sex þúsund ár – þá hafði hann skapað mennina og gefið þeim töluvert frjálsræði, en þeir urðu honum mjög óþægir. Svo þegar forlagadísin tók við stjórninni eftir hann þá sýndist henni ráðlegast að svipta þá öllu frjálsræðinu og stjórna sérhverri hugsun þeirra, orði, verki, fótsporum og jafnvel andadrætti, að vér ekki tölum um lengd lífsins, lán og ólán, giftingar, barneignir og annað þvílíkt. Það lítið sem vér höfum af lagafræði er frá föður hennar, en nú þarf þeirrar fræði ekki við þar sem vér getum ekkert nema það sem forlagadísin vill. Glerhiminn er umhverfis eða utan um allan heiminn og eins að neðan; hann er til að mynda eins og hnöllóttur eggskurmur. Guðirnir búa í sólinni og þegar einhver þeirra er orðinn mjög gamall og þreyttur af að stjórna þá vekur hann einhvern þeirra sem áður hafði dáið eða sofnað, en fer sjálfur í tunglið og leggst þar í þennan fasta svefn því þar er legstaður þeirra.

Nú er líklegast að forla[ga]dísin veki bróður sinn þegar henni fer að leiðast að vaka og stjórna.

Þegar mennirnir deyja þá fara sálir þeirra fyrst niður á glerhiminsbotninn og eru þar að leika sér þangað til guðaskiptin verða aftur; þá flýgur allur hópurinn upp og kemur við á jörðinni og þar tekur hver sinn líkama, en þá eru þeir miklu léttari en nú, og síðan heldur allt hyskið áfram upp í stjörnurnar og þær minnstu af þeim eru nógar fyrir margar búslóðir. Ennþá er ekki margt af fólki komið í þær því fátt mun hafa verið dáið þegar seinustu guðaskiptin urðu.

Nú er mannfólkinu skipt í tvennt og kemur það til af því að þegar fyrstu foreldrarnir – sem hétu Karl og Kerling – voru búin að eiga mörg börn þá sagðist faðir forlagadísarinnar ætla að koma og skoða þau á einum tilteknum degi. Um morguninn snemma fór Kerling að þvo börnunum í framan og um hendur og lét þau vera í afþiljuðu húsi, en sleppti út jafnótt og hún þvoði. En faðirinn kom fyrri en hana varði svo einn þriðjungur af börnunum var eftir óþveginn þegar hann kom. Karl var úti og bauð honum strax inn. En þegar Kerling heyrði til þeirra þá fór hún út úr húsinu og læsti þau óþvegnu þar inni. Þegar faðirinn hafði skoðað börnin spurði hann Kerlingu hvort þau væru ekki fleiri. Hún neitaði því. Þá sagði faðirinn: „Fyrst þú vilt reyna til að hylja þau fyrir mér þá skulu þau vera hulin fyrir þér og hinum systkinum sínum.“

Þetta voru nú aðeins stórmerkin eða merkilegustu trúaratriðin sem Ingibjörg nam úr bókinni; en þegar hún hafði lesið um hríð þá kom fólkið heim. Ekki var þess langt að bíða að Baldvin kæmi inn og varð þá mikill fagnaðarfundur. Hann settist á litla rúmið hjá Ingibjörgu og margt ræddu þau sem ekki verður ritað. Eftir það fer Ingibjörg að búast til heimferðar og Baldvin gengur með henni. Þá segir Ingibjörg: „Hvað heitir presturinn ukkar?“ „Hann heitir Hundi,“ segir Baldvin, „hann er nú gamall mjög, en hann á ungan son sem Hvelpi heitir og er nú búinn að læra og á að verða prestur eftir föður sinn.“ „Þurfa þeir nokkuð að kenna?“ segir Ingibjörg; „eru ekki allir hlutir óbifanleg forlög?“ „Svo er það nú orðið,“ segir Baldvin, „síðan dísin tók við stjórninni; en á meðan faðir hennar ríkti var siður að brúka sunnudagana honum til heiðurs og þessi siður viðhelzt ennþá: að heiðra forlagadísina, veita henni lotningu, þakka henni fyrir hið góða og biðja hana að afstýra hinu vonda, þó það sé ekki til neins því hún gjörir einmitt það sem henni gott þykir.“ „Það er ekki vandlifað hjá ukkur,“ segir Ingibjörg. „Nei,“ segir Baldin, „þó einhver gjöri á hluta annars þá er það einungis reynsla handa þeim sem fyrir því verða, og þó mennirnir séu misgóðir þá var forlagadísinni frjálst að gjöra þá svo eins og hvað annað sem misjafnt er.“ Eftir samtal þetta kvöddust þau og hvort fór heim til sín. Sumarið leið til enda og veturinn kom eftir venju. En þegar setzt var að og farið að vaka á kveldum þá var haft til skemmtunar á Hömrum að lesa sögur og kveða rímur. Þá sá Ingibjörg að móðir Baldvins kom á hverju kveldi inn á baðstofugólfið með prjónana sína og Baldvin stundum með henni. En þegar átti að fara að lesa húslesturinn þá hvarf konan.

Þannig leið nú tíminn áfram svo að ekkert bar til tíðinda þar til Ingibjörg var átján ára að aldri. Þá kom að Hömrum bóndasonurinn frá Brandagili við Hrútafjörð þess eyrindis að biðja Ingibjargar sér til ektakonu því hann hafði heyrt mikið sagt af fegurð hennar og vænleika og öllu atgjörvi. Hann var og sjálfur allvænn maður og efnaður vel svo foreldrum Ingibjargar þókti þetta allgott gjaforð fyrir hana og hún fyrir sitt leyti gat ekki fundið að manninum, en vildi þó finna Baldvin áður en hún héti nokkru um gjaforðið og fór því maðurinn svo búinn í það sinn. Þegar hún sá sér færi á hljóp hún á fund Baldvins og sagði honum hvað gjörzt hefði og spurði hann ráða. Hann kvaðst ekki annað ráð sjá en að hún mundi mega ganga að þessum kosti – „og þó okkur verði nokkuð þungt að skilja, þá sé ég ekki ráð til að við getum saman verið. Bæði þykir mér illt að láta þig hverfa frá öllum ættingjum og vinum og þar til veit ég ekki hvort þú mundir festa yndi hjá oss til lengdar vegna ólíkra trúarbragða og ýmislegra siða; en þó er hitt því síður að ég geti verið í mannheimi.“ Við endalok þessa fundar föðmuðust þau og kysstust, en ekki hefur Ingibjörg getið þess hvað fullkomin þessi faðmlög voru.

Nú liðu fram tímar þar til Magnús frá Brandagili kom aftur að vitja bónorðsins. Það var snemma á vetri, en hin fyrri ferð hans þangað var á áliðnu sumri, og á því tímabili höfðu þau Baldvin og Ingibjörg oft fundizt og búið sig undir að skilja. Í þessari ferð fékk Magnús fullkomið loforð fyrir Ingibjörgu og skyldi brúðkaup þeirra verða á Brandagili að næstkomanda vori og þá ætlaði Magnús að fara að búa þar á móti foreldrum sínum. Eftir það fór Magnús heim og undi nú vel hag sínum. Á tilteknum tíma um vorið kom Magnús aftur að Hömrum til að sækja Ingibjörgu. En um kveldið þegar allir voru komnir í rekkju þá stóð Ingibjörg upp og gekk út. Var þar þá kominn Baldvin og heilsaði henni blíðlega. Hún tók vel kveðju hans og síðan gengu þau bæði á tal saman. Það var eitt af því sem Baldvin talaði við hana að hann sagði henni að hún mundi eiga barn af sínum völdum, en ekki mundi henni fleiri barna auðið verða og ekki sér sjálfum heldur, enda kvaðst hann ekki mundi hafa hug til giftingar og ekki gamall verða og þessi fundur þeirra mundi verða sá síðasti. Eftir það gaf hann henni fingurgull og bað hana að hafa það jafnan á hönd sér. Ekki hefur Ingibjörg sagt fleira af samtali þeirra; en þegar þau skildu eftir langa og alúðlega kveðju var sólin upp komin. Gekk þá Ingibjörg til hvílu sinnar og lagðist niður, en gat með engu móti sofnað. Daginn eftir bjóst hún til ferðar með Magnúsi og fóru þau svo bæði saman til Brandagils og var henni þar vel fagnað. Hún gjörðist þá bústýra hjá Magnúsi og litlu síðar giftust þau. Tók hún þá við öllum konuráðum og þókti hin bezta húsfreyja.

Þegar komið var fram í sextándu viku sumars lagðist Ingibjörg á sæng og ól meybarn. Það var skírt Guðrún. Eftir þetta fór nágrannakvenfólkið að telja tímann frá því Magnús fór seinni bónorðsförina til Hamra og til þess að barnið fæddist; og eftir margar djúpar og langar rannsóknir fannst því vanta í það minnsta þrjár vikur til að barnið gæti verið fullaldra, en þó var ekki annað á því að sjá en svo væri. Þetta óþarfatal hjaðnaði bráðum niður aftur og var svo kjurt um hríð.

Guðrún vóx upp hjá foreldrum sínum og var hið mesta atgjörvisbarn að viti, vexti og fríðleika. En hvorki var hún þó lík föður sínum (sem hún og aðrir kölluðu svo) og ekki heldur móður sinni; og þó aðkomukonur leituðust við að sjá hverjum hún væri lík þá kom það fyrir ekki; hlutu þær því að spá að hún líktist einhverjum langt fram í ætt sinni. Þegar Guðrún var sextán ára að aldri var hún orðin sem fulltíða kvenmaður á vöxt. Hún hafði jarpt hár á höfði og rjóðar kinnar. Öll var hún laglega vaxin og yfir höfuð að tala ein með fríðustu stúlkum. Snemma þókti móður hennar fara að bóla á því að henni þækti vænt um karlmenn. Vildi hún því sem fyrst leitast við að gifta hana og ræddi um það við mann sinn, en honum þókti ærið nógur tími til þess. Tók þá Ingibjörg það ráð að koma henni fyrir til vistar á Huppahlíð í Miðfirði og hafði það ofan á að hún ætti að fara að læra að sníða og sauma; en reyndar vissi Ingibjörg að hjónin í Huppahlíð áttu tvo sonu allefnilega. Annar þeirra var um tvítugsaldur og hinn lítið yngri. Vænti því Ingibjörg að öðrum hvorjum þeirra mundi lítast vel á hana. Þetta fór að nokkru leyti eins og Ingibjörg vænti, því báðum þeim bræðrum og mörgum öðrum leizt vel á Guðrúnu, en ekki er þess getið að neinn hafi beðið hennar sér til ektakonu. En ekki kom það til af því að piltar hefðu ógeð á henni því hún var greind, glaðlynd og skemmtileg við alla sem hún umgekkst með og vel fáanleg til að gjöra að gamni sér eftir því sem tíðkast í Húnavatnssýslu.

Þegar Guðrún hafði verið nokkur ár í Huppahlíð þá fór hún einu sinni kynnisferð vestur að Brandagili og dvaldist þar þrjár nætur, og töluðu þær mæðgur þá margt saman. Meðal annars sagði Ingibjörg dóttur sinni hvaða orð færi af henni og kvað það illa fara að hún giftist ekki. Guðrún kvað að bágt mundi við því að gjöra. Ingibjörg segir að ekki muni gæfuvon að vera þegar álfar og menn hafi samræði; og síðan segir hún dóttur sinni alla ævisögu sína og hlýddi Guðrún á hana með mikilli hæversku. Síðustu nóttina sem Guðrún var hjá móður sinni var Magnús bóndi ekki heima og sváfu þá mæðgurnar saman. Þegar þær voru komnar í rekkju um kveldið segir Ingibjörg: „Í flestu ert þú lík honum föður þínum því aldrei hef ég fundið heitari menn en ukkur bæði og mun þeim hita fylgja fjör nokkurt.“ Guðrún brosti að orðum móður sinnar og kvað það ekki ólíklegt.

Um nóttina dreymdi Ingibjörgu að hún þóktist eiga heima á Hömrum og ganga til álfabæjarins. Þar sá hún Baldvin liggja á bakið í rúminu sem var á móti uppganginum og amma hans hafði áður verið í. Hann talaði ekki orð og ekki sá hún augu hans bærast; því síður aðra limi. Hún stóð þar litla stund og horfði á hann og leit í kringum sig, en það sem hún sá af fólki lá allt í rekkjum og hafði breitt feldi yfir höfuð sér. Eftir það vaknaði hún og sagði dóttur sinni drauminn. En Guðrún réði svo að faðir sinn mundi vera andaður. Ingibjörgu þókti það alllíklegt, en það sá Guðrún að slík ráðning fékk nokkuð á hana. Um daginn eftir skildu þær mæðgur með mikilli vináttu og Guðrún fór heim til sín.

Nokkrum árum eftir þetta urðu húsbændaskipti á Huppahlíð, en Guðrún varð þar kjur og fór þaðan ekki meðan hún lifði. Hún varð nálægt því sjötíu ára gömul og dó barnlaus. Hún hafði sagt kunningjum sínum þessa frásögu og hefur sagan þannig til vor borizt með sannorðu fólki.

Síðan Guðrún andaðist eru nú (1862) hér um bil fimmtíu ár. Og endum vér svo þessa sögu.