Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jón á Sandfelli
Jón á Sandfelli
Það kom fyrir einu sinni sem oftar að börn og vinnuhjú frá Sandfelli í Öræfum fóru á sunnudegi seint á sumri á berjamóa eins og þar hefur tíðkazt og eru berin mestpart höfð saman við í skyrið sem safnazt hefur um sumarið. Í þetta sinn var þar prestur síra Guðmundur Bergsson[1] og messaði þenna sama dag á útkirkjunni. Vinnumaður nokkur var þar uppalningur að nokkru leyti, en var ófyrirlátsamur og féllst ekki á ráð þeirra sem vildu siða hann eða segja honum til, hvörki móður sinnar né annara er eitthvað vildu siða hann og var helzt tekið til þess að móður hans gat ekki haldið honum inni á meðan lesinn var húslesturinn.
Þessi maður hét Jón og fór hann þenna sama dag að leita berjanna. Þar var hár steinn í högunum og höfðu vaxið á þrjár birkiviðarhríslur sem enginn hafði viljað hreyfa vegna þess það orð lék á að huldufólk mundi búa í honum og var þessi Jón varaður við því eins og aðrir. En þennan sama dag tekur Jón fyrir að klifrast upp á þennan stein og fer að reyna að ná upp hríslunum og tekst það með því að skora þær einhvörn veginn upp með vasahníf sínum, tók þær síðan heim með sér og reisti þær upp hjá rúmi sínu sem var í fornmannaskála sem hann einn svaf í. Berin voru heim færð um kvöldið og voru látin í skyrsafnið í ker er stóð undir hillunni sem mjólkurtrogin voru látin standa á. En það sama kvöld vildi so óhappalega til að þegar mjólkinni var hellt í trogið að það sporðreistist og fór mjólkin niður og berin ofan af kerinu því hún kom þar í með svo miklu kasti. Jón leggur sig til svefns um kvöldið í rúmi sínu eins og hann var vanur. En þegar hann er nýsofnaður kemur til hans kona og heimtar af honum hríslurnar sínar eða hún skuli ganga næst lífi hans og leggur höndur á hann. Hann hrökkur upp, tekur hríslurnar, kastar þeim út fyrir skáladyrnar og segir hún skuli taka við þeim eins og hann til tekur, fer síðan inn í rúmið sitt og sofnar. En þá hann er sofnaður kemur sú sama kona, að honum virðist, og heimtar af honum hríslurnar og þjarmar honum so að hann ætlar ekki að komast á fætur. Samt kemst hann á fætur og fleygir með illyrðum hríslunum út fyrir bæjardyr, fer síðan í rúm sitt, og strax þegar hann sofnar kemur sú hin sama kona og segist nú skuli drepa hann ef hann ekki færi sér hríslurnar sínar og láti þær eins og þær voru þegar hann tók þær. Hann kemst með naumendum á fætur, klæðir sig, fer með þær út í haga á sama klettinn og borar þeim þar einhvörn veginn niður so þær gátu staðið og er so allt kyrrt úr því.
Þar í Öræfunum er mikil selveiði á vissum tíma á vetrinn og fóru allir sem færir þóttu til þeirrar veiði meðal hvörra Jón var einn. Var hafður við það ýmislegur útbúnaður til að vinna selina. Jón hafði skutlað einn stórsel, en bundið skutulstrengnum yfrum sig. En þá selurinn fékk lagið tók hann so harða ferð fram í sjó að Jón gat ekki haft ráðrúm til að losa af sér skutulstrenginn. Fór so selurinn með hann fram í sjó og spurðist ekki til hans framar.
- ↑ Þjónaði þar 1759-1772.