Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jón á Svínahóli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Svo bar til að um kvöldvöku á vetri var einu sinni á bæ nokkrum verið að tala um álfafólk og lögðu menn misjafnan trúnað á slíkar sögur. Þar var einn sonur bóndans um tvítugs aldur sem hét Jón, manna mestur og sterkastur og harðgerður maður í skapi. Hann rengdi mjög allar þessar huldufólkssögur og segir loksins í skopi: „Ég vildi ég ætti einhverja huldufólksstúlkuna, þá yrði ég mikill lánsmaður.“ Datt svo talið niður. En daginn eftir stendur hann hjá fé og kemur þá til hans ungleg og lagleg stúlka og gengur allnærri honum, en yrðir þó ekki á hann og hann ekki á hana, en hún veitti honum eftirför hvort sem hann fór þegar hann var einsamall, og hvarf svo þegar hann kom til annara. Þetta gekk svo í nokkra daga og skeytti hann því ekki og lét sem hann sæi hana ekki, gat ekki heldur um það við nokkurn mann. Að nokkrum tíma liðnum fór hún að vitja hans á nóttunni, en yrti þó ekki á hann, heldur settist hjá rúmi hans. Fór hann þá að verða leiður á þessum heimsóknum með því líka að næturvitjanir hennar stóðu honum fyrir svefni.

Um þetta leyti var hinn svonefndi Latínu-Bjarni (af sumum kallaður djöflabani) þar á ferð; var þá leitað ráða til hans og réði hann til þess að maðurinn flytti sig úr þessu byggðarlagi og kvað hann huldustúlkuna ekki mundu vinna það fyrir að yfirgefa bústað sinn, og var þetta afráðið. Á næsta vori fluttist Jón frá Svínahóli í Dölum (þar gerðist þessi saga) að Brekku í Gilsfirði. En seinustu nóttina sem Jón var á Svínahóli kom stúlka hans til hans að vanda og segir þá við hann heldur reiðugleg: „Ekki skaltú lengi yndis njóta á þínum fyrirhugaða nýja bústað, en ekki mun ég nú aftur vitja þín.“ Þessi ein orð mælti hún við hann og svo skildu þau. Jón fluttist að Brekku og reisti þar bú, en að fám árum liðnum varð hann líkþrár og dró sú sótt hann til dauða.