Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jörundur á Finnbogastöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jörundur á Finnbogastöðum

Jörundur hét maður; hann átti þá konu er Herdís hét. Þau bjuggu á bæ þeim er Finnbogastaðir heita í Trékyllirsvík. Ofannefnd hjón áttu son er Jörundur er nefndur; hann var sjö ára þegar hér er komið sögunni. So er háttað landslagi að austur frá bænum liggja graslendur nokkrar kallaðar Grundir, en þá klettaraðir tvær, kallað Ytra- og Innraskarð. Fjallsröðull liggur ofan að hinu ytra skarði með hjöllum og hömrum; einn af þeim hömrum kallast Sleggja. Einn morgun átti Jörundur litli að reka kýr út í sokallaða Öxl nálægt klettinum Sleggju. Sýndist þá piltinum móðir sín koma og tók hann á rás og vildi hitta hana, en hún fór undan þar til þau komu að bæjardyrum sem hönum sýndust eins og heima. Þá tekur konan í hönd hans og leiðir inn í [bæ]. Bar hún síðan mat á borð og skyldi hann neyta, en allt hvað honum var boðið sýndist honum loðið og gat einkis neytt, hvað konunni þótti illa fara, og eitt sinn bar hún mjólk fram og sagðist hafa sótt hana til móðir piltsins; en sama loðna sýndist honum á þeirri mjólk sem öðrum mat. Þó ekki gengi vel að seðja drenginn ætlaði kelling að halda til þrautar og hafði hann hjá sér fulla viku. Síðan flutti hún hann til Finnbogastaða og að skilnaði segir hún: „Það veit ég víst að ekki ert þú orðsök í því að ég ekki hef getað haft tilætlað gagn af þér, heldur er það að kenna bænum móður þinnar og því hegni ég þér ekki sem vert er. En það legg ég á þig að ekki skalt þú afkvæmi eiga og enginn sem þitt nafn ber til sjöunda manns.“ Síðan hvarf konan, en Jörundur litli hitti móður sína, sorgandi og þó glaða við hans heimkomu, og sagði frá þessari sögu í elli sinni. Og hefur það þótt rætast er álfkonan spáði að Jörundar í ætt þeirri hafa ekki barna aflað í tilteknum liðum.