Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jörundur undir Jörundarfelli og Ásmundur undir Ásmundargnúpi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Jörundur undir Jörundarfelli og Ásmundur undir Ásmundargnúpi

Í fornöld bjuggu þeir Jörundur undir Jörundarfelli og Ásmundur undir Ásmundargnúpi; voru þeir vinir miklir, en á efri árum trylltust þeir og gekk þá hvor í það fell sem við hann er kennt. Það er mælt að Ásmundur hafi átt vopn þau og herklæði er voru gersemi mikil; festi hann þau framan í hamar einn í Ásmundargnúpi og mælti svo fyrir að þeim einum skyldi verða auðið að ná þeim er ekki léti skírast og ekki hefði alizt á öðru hin fyrstu tólf aldursár sín en kaplamjólk og hrossakjöti, en engum hefur auðnazt að ná þeim til þessa. Þeir Jörundur og Ásmundur höfðu mikla ást á Vatnsdal og eru þeir ármenn eða bjargvættir dalsins. Einhvern harðindavetur heyrðu menn þá vera að kallast á og voru þeir þá að ráðgjöra að refta yfir dalinn svo snjór félli aldrei í hann, en sú ráðagjörð fórst fyrir því þeim þótti dalurinn verða ófegri ef sól næði ei að skína í hann.