Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jarðholan hjá Skáldalæk

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jarðholan hjá Skáldalæk

Einar bóndi í Sigtúnum átti mörg börn. Dóttir hans ein hét Guðrún, önnur Ingibjörg. Átti Guðrúnu Gunnlaugur prestur Eiríksson á Laugalandi. Var hann klausturprestur að Múkaþverá. Sonur hans hét Þorgils sem síðar var vinnumaður á Múkaþverá hjá Sveini lögmanni Sölvasyni.

Það bar til eitt aðfangadagskvöld fyrir jól að Þorgils gekk frá Múkaþverá upp að Sigtúnum. Gekk hann heim aftur um kvöldið. Var þá fagurt veður. En er hann kom á mýrarnar varð fyrir hönum lækur sá Skáldalækur heitir. Sá hann að við lækinn í einum stað rauk upp úr jörðunni. Gengur hann þangað; sér hann þá glugg einn líkan eldhúsglugga. Leggur hann sig þá niður að glugganum. Sér hann þar er eldhús og ketill á hlóðum. Að stundu liðinni kemur kona fram, gengur að katlinum og hrærir í og kvað vísu undir fornyrðalagi, gengur inn síðan. Er hún gleymd. Að vörmu spori kemur önnur kona fram, hrærir í katlinum, lítur upp í eldhúsgluggann og kvað vísu þessa; var hún nokkuð lík hinni að lagi og efni; er hún svona:

Brauð er vætt í blóði,
brimskýjað nið margýgju;
sandur af silfri blandinn,
sjáandinn horfir á það.

Lærði Þorgils báðar vísurnar, þó að sú fyrri sé nú gleymd. Eftir það fór konan burtu, en hann leit upp. En er hann leit niður aftur og vildi meira sjá, var þá allt horfið og sá hann ekkert nema grunna holu ofan í jörðina. Fór hann síðan heim og var þá mjög undarlegur.