Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kötludraumur

Úr Wikiheimild

Már hét maður; hann var höfðingi mikill og bjó á Reykhólum vestra. Hann átti konu þá er Katla hét; hún var af góðum ættum. Einhverju sinni reið Már sem oftar til alþingis, en Katla var eftir heima. Meðan Már er burtu gengur Katla einn morgun til dyngju sinnar og sofnar þegar. Þangað komu og aðrar konur síðar og sefur hún sem áður. Þegar leið að miðdegi vilja þær vekja Kötlu, en þess var ekki kostur; hugðu þær Kötlu þá dauða og sögðu fóstra hennar til. Þegar hann kom þar sem Katla lá sagði hann að hún væri ekki dauð því önd bærðist fyrir brjósti hennar, en hann gæti ekki vakið hana; sat hann svo yfir henni fjögur dægur föst og full. Á fimmta dægri vaknaði Katla og var þá harmfull mjög en enginn þorði að fregna hana hvað því olli.

Eftir það kemur Már heim af þingi; þá hafði Katla brugðið háttum sínum því hvorki gekk hún í móti honum né hneigði honum er hann kom. Hann leitar þá eftir hjá salkonum hennar hvað þessu valdi, en þær kváðust ekki vita neitt um það annað en að Katla hefði sofið fjögur dægur, en ekki sagt neinum hvað fyrir sig hefði borið. Már gekk þá á konu sína um þetta í tómi og spurði hvað orðið hefði um hana í svefnhöfga þessum og kvað henni ekki mundi verða mein að mælgi sinni. Katla sagði honum þá upp alla sögu. „Mér þótti,“ segir hún, „kona koma til mín í dyngjuna, húsfreyjuleg og orðfögur. Hún kvaðst eiga heima á Þverá skammt héðan og bað mig að fylgja sér á götu. Ég gjörði svo, en hún lagði glófa sína þar sem ég sat og sagði að þeir skyldu verja sætið. Við gengum svo út og komum að vatni einu; þar flaut bátur fagur.[1] Þakkaði hún mér þá fylgdina, en ég bað hana vel fara. Varð ég þess þá vísari að hún hét Alvör; bað hún mig taka í hönd sér og gjörði ég svo. Vatt hún mér þá í bátinn og réri með mig að hólma einum; fann ég þá að hún réði ein öllu, en ég engu. Hún gjörði sig þó blíða við mig og kvað sig nauðsyn hafa knúið til þessa, „og skal ég,“ segir hún „fylgja þér heim aftur.“ Við komum þá til híbýla hennar í hólmanum; voru þau svo fögur að ég hef aldrei bjartari bústað litið. Fylgdi hún mér í herbergi eitt þar sem konur nokkrar voru fyrir, og var þar kerlaug búin og rekkja vel tjölduð. Eftir það var mér borinn víndrykkur og lagðist ég svo til svefns.

Ég vaknaði við það aftur að skikkja lá hjá mér búin skíru gulli, húsfreyja bar og til mín önnur föt gullsaumuð; síðan kastaði hún yfir mig kápu sinni, var hún af guðvef og grátt skinn undir, búin brenndu gulli. Bað hún mig þá eiga þessar gersemar ef ég vildi; þar með var hringur af rauðagulli, höfuðgull og men, fjögur fingurgull og lindi fagur. Síðan bað hún mig ganga inn í skála sinn og varð hún því öllu ein að ráða. Gengum vér þar inn átta konur saman; var þar glæsilega fyrirbúið; skálaveggirnir voru búnir gullmerktum tjöldum, silfurker á borðum og gullbúin drykkjarhorn og skrautmannalið mikið fyrir í skálanum. Í öndvegi hinu æðra sá ég hvílu eina; þar lá maður í silkiklæðum; Alvör tók á honum, vakti hann og nefndi hann Kára.[2] Hann vaknaði og spurði því hún hefði vakið sig eða hvort hún bæri sér nokkur ný tíðindi, „eða er Katla komin hér í skálann?“ Sá hann þá að svo var. Vorum við Kári sett síðan bæði á einn bekk og bað Alvör menn kalla Kára brúðguma; var svo gjört; tóku menn nú til drykkju og var drukkið fast um daginn. En er kvöld var komið sagði Alvör að ég skyldi hvíla hjá Kára, en ég kvað þess enga von, miklu elskaði ég Már heitara en svo að ég mætti yndis njóta með öðrum manni. Alvör sagði ég mundi þess aldrei bætur bíða ef ég yrði ekki við vilja Kára. Mér varð ráðafátt við þessi orð því ég þóttist sem einmana í vargaflokki. Þegar ég var gengin til hvílu kom þar maður til mín og bað mig eiga allt gull sitt og gersemar, en ég gaf honum enga von blíðu minnar. Kári lét mig þá drekka af horni er hann hafði áður drukkið af og kvaðst fyrr vildi bíða helstríð en sjá mig hrygga. Bað hann mig þá huggast láta og hét að mér skyldi verða bráðum fylgt heim aftur.

Var ég svo þar tvær nætur hrygg í huga; enginn vildi þar angra mig, heldur gleðja mig. Segir þá Kári við mig að við munum eiga son í vonum. Bað hann mig kalla hann Kára.[3] Hann tók þá belti ágætt og hníf og fékk mér; bað hann mig fá það syni okkar að það fylgdi nafni. Hann bað mig leggja skrúðklæði mín og gersemar allar í skjóðu og kvaðst hann unna mér þeirra bezt að njóta. „Skaltu sýna það allt,“ segir hann, „Már manni þínum og inna honum satt frá öllu þó þér þyki það sárt og sviðamikið. Þið skuluð byggja ykkur nýjan bústað yfir á Þverá, muntu finna þar fuglþúfur tvær við endann á skála mínum og verða það féþúfur ykkar. Þar mun lifna af ykkur mikill ættbogi er frægur mun þykja. Nú mun ég verða að skiljast við þig og aldrei líta þig augum framar enda veit ég eigi hvað langra lífdaga mér verður auðið héðan af.“ Síðan leiddi Alvör mig út harmfull í huga; heyrði ég þá brest mikinn í skálanum er Kári sprakk af harmi mín vegna.“

Segja þá sumar sagnir[4] að hún flytti Kötlu á bátnum sama yfir vatnið og fylgdi henni svo heim að hlaðgarði og tæki aftur glófa sína úr sætinu. Sagði hún þá við Kötlu að skilnaði: „Farðu heil Katla þó ekki hafi ég af syni mínum nema sorgir einar og njóttu vel gersema þinna.“ „Er nú draumur minn á enda,“ segir Katla, „og vænti ég, Már, þess af drengskap þínum að þú finnir mér vorkunn er ég var alls ósjálfráð.“ Már bað hana sýna sér gersemarnar og gjörði hún svo. Litlu fyrir sumar veturinn eftir fæddi Katla sveinbarn einkar frítt og þótti Már sveinninn giftusamlegur. Var hann kallaður Kári sem faðir hans hafði fyrir mælt, og lét Már kalla sig föður sveinsins og reyndist honum í öllu betur en móðir hans er jafnan var fá við hann. Var nú fluttur bústaður þeirra Márs þangað sem Katla sagði fyrir, og bjuggu þau hjón þar saman og unnu hvort öðru mikið og áttu mikið auðnulag saman.[5]

- - -

Hin lengri handritin af Kötludraumi segja svo frá að þegar þær Alvör og Katla voru komnar yfir vatnið tók Alvör á henni með báðum höndum, en við það hvarf Kötlu ást hennar til Márs. Leiddi Alvör hana svo í herbergi sitt sem fyrr segir; voru þar konur fyrir og þóttust allar kenna Kötlu. Síðan tók hún þar á karlmanni er hún nefndi Kára og bað hann vakna og sagði að nú bæri nokkuð til nýlundu því Katla væri þar komin. „Kári vaknar,“ segir Katla, „og bað mig heila og heppna heimsækja sig; kvað hann mig hafa brugðið svefni sínum, og deyja kvaðst hann af ást til mín er ég færi þaðan. Kom Alvör þá og lét búa mér kerlaug og gefa mér vín að drekka áður ég gengi í hvílu sonar hennar. Sagði hún að þau ósköp skyldu á mér hrína er ég biði aldrei bætur ef ég synjaði syni hennar. Varð hún þá ein öllu að ráða því ég hafði misst alla sinnu. Dvaldi ég svo þar allan þann tíma sem ég var burtu.

Einn morgun kom Alvör að sæng þeirri er við sváfum í og sagði ég mundi verða að klæðast þó syni sínum væri það til angurs. Kári stundi hátt er ég skildi við hvílu hans og ég vildi sjálf hafa verið þar lengur og varð undur nauðug að skilja við hann. Þá sagði hann mér um son þann er við ættum í vændum, fékk mér belti, hníf og hring hinn þriðja grip er ég skyldi geyma til menja handa syni okkar. „En þér gef ég,“ segir Kári, „skikkju af skæra gulli, men og sylgju; munu það flestum mönnum hnossir þykja; þá gripi skaltu eiga til elli.“ Klæddist ég þá í allt þetta skart og varð að skilja við hann sárnauðug.“ Kári huldumaður hafði beðið Kötlu að kalla son þeirra Kára sem fyrr er sagt og var svo gjört. Liðu svo önnur misseri af hendi; átti Katla þá annan son, hann nefndi hún Ara því hún vildi því nafni ráða. Ólust þeir bræður upp báðir saman og var Katla löngum fálátari við Kára en Ara, en Már gjörði þeirra engan mun og fann að því við konu sína.

Liðu nú fram tímar að ekki bar til tíðinda unz þeir bræður voru orðnir fimm og sex vetra; þá réri Már til fiskjar einn morgun snemma með húskörlum sínum því veður var blítt, en Katla svaf eftir í sæng þeirra. Þótti henni þá Alvör koma inn að rekkjunni heldur fasmikil og mæla svo: „Misskipt er með okkur; þú nýtur yndis af manni þínum, en ég hef helstríð eftir son minn. Því skaltu velja um tvo kosti, hvort þú vilt heldur missa Már í dag eða sonur þinn svívirða þig í orðum.“[6] Kaus Katla skjótt hið síðara og skildu þær talið. Már kom heim um kvöldið og var Katla þá enn hrygg í huga. Leitaði hann þá eftir hvað ylli ógleði hennar. Hún sagði honum upp alla sögu. Már bað hana vera káta. „Munum við,“ segir hann, „finna bót við þessu böli; við skulum stofna veizlu og bjóða þangað bræðrum þínum; skaltu vera blíð við alla, en engu gegna fyrr en að þér kemur.“

Liðu nú stundir fram til veizlunnar og sat Már heima. Þegar bræðra Kötlu var þangað von gekk Már móti þeim með fjölmenni og fagnaði þeim blíðlega; þeir voru allir goðorðsmenn. Katla fagnar þeim og vel og var þeim boðið sæti og borið öl að drekka. Katla var þá í skikkjunni og hafði menið góða á hálsi sér, Káranaut. Þegar menn voru í sæti komnir og drykkja byrjuð mælti Már: „Hér skulu standa veizlugrið og haldi þau hver sem drekkur unz veizlan er úti.“ Gáfu allir því góðan róm og lofuðu að halda griðin. Þá var Katla komin í sæti sitt, en sveinarnir léku sér á gólfinu. Kári bað þá móður sína að ljá sér menið góða til að leika sér að. Hún lét það eftir honum. Ari sá það og varð heldur fár við; sækir hann þá eftir meninu hjá Kára, en hann synjaði og vildi ekki laust láta. Ari mælti þá: „Heldur þú meninu fyrir mér, leiður hóruson; ég sem á hér einn allar eignir?“ Við þessi orð sveinanna gekk Katla úr sæti og til rekkju sinnar því hún ætlaði að springa af harmi. En er hún var gengin út tóku bræður hennar upp orð sveinanna og reiddust ákaflega er systir þeirra væri þvílík ættarskömm og kváðust skyldu hefna þess ef hún hefði verið smánuð af nokkrum því sveinninn kynni ekki að ljúga. Már bað þá ekki henda slíka markleysu eftir börnum og væri það ósvinna. En þeir bræður reiddust svo mikið við það að þeir urðu óstöðvandi og kváðu þau Már hafa leynt þessu með slægsmunum, en orðrómurinn hefði ríkt hjá þeim bræðrum. Már kvaðst aldrei hafa lagt þar orð að við konu sína. „En segið mér bræður,“ segir hann, „hvers er sá verður sem óviljandi ratar í vandræði eða þó hann sjái sjónhverfingar í draumi?“ Gekk hann svo burt úr veizlusalnum og í loft það er Katla lá í og mælti: „Nú er það eitt til að þú segir þeim bræðrum upp alla sögu; má það bæði vinna bót á böli þínu og stilla vandræði og manndráp sem annars er viðbúið.“ Katla kvað sér hans ráð hollust mundu þó heldur vildi hún bana bíða en segja öllum sorgir sínar. Síðan gengu þau Már á fund þeirra bræðra og voru þeir allreiðir. Már skoraði þá á konu sína að inna þeim allt af högum sínum og gerði hún svo. En er þeir höfðu hlýtt sögu hennar drap hljóð úr þeim því þeim þótti systir sín vera saklaus. Gengu þeir þá allir fyrir Már og þökkuðu honum með virktum hversu vel honum hefði farizt í öllum þessum málum og hétu honum vináttu sinni með fastmælum. Unnust þau Már og Katla hugástum áður og síðan meðan bæði lifðu.

Ari Mársson varð höfðingi mikill og líktist föður sínum um flesta hluti og er margt manna frá honum komið. Kára komu þau í fóstur í Rennudal; studdu þau hann til góðs kvonfangs og fengu auðlegð nóga og reisti hann þar bú. Kári varð ríkur maður og þótti dulvitur. Hann var fróður um straumagang og stjarna.

Það er og sumra sögn að Kári Kárason hafi oft komið til ömmu sinnar í uppvexti sínum og numið af henni ýmislegt fróðlegt er huldufólk tíðkaði í forneskju enda varð fæstum það að góðu er vildu gjöra á hluta hans; urðu og fáir til þess því hann kom sér vel og náði höfðingjahylli. Þegar Már var dáinn er sagt að Kári hafi tekið þær báðar, Kötlu móður sína og Alvöru ömmu sína, og voru þær báðar hjá honum undireins og áttu allilla skaplyndi saman svo að Kári hafi jafnan orðið að ganga á milli þeirra. Einu sinni kom hann að er þær deildu; er þá mælt að honum hafi runnið í skap, en þess var ekki vant. En er hann hafði staðið þar litla stund kom eldur upp úr gólfinu, og brann Alvör amma hans þar til ösku svo ekkert varð eftir af. En hvort Kári hafi valdið bruna ömmu sinnar eða eldurinn hafi komið af ofstæki kerlingar er eigi frá skýrt; þó hafa nokkrir látið sér um munn fara að Kári hafi drepið ömmu sína.

Enn er það í munnmælum um Kötlu eftir það Alvör var búin að vitja hennar tvisvar sem áður er sagt og gjöra henni með því hverja skapraunina eftir aðra hafi Katla látið snúa bæjardyrum á Reykhólum svo að þær horfa enn í dag upp til fjallsins og gagnstætt því sem aðrir bæir snúa í Reykhólasveit. Þetta gjörði Katla til þess að hún skyldi ekki sjá bústað Alvarar sem átti að hafa blasað við úr bæjardyrunum meðan þær sneru til suðurs og vekja með því harma sína. Það er og sagt að Katla hafi ekki viljað ganga í laug í Reykhólalaugum sem eru suður frá bænum af því hún þóttist þar of nærri híbýlum Alvarar og því hafi hún farið inn frá bænum góðan kipp og laugað sig í laug þeirri sem þar er einstök og heitir síðan Kötlulaug.

  1. Tvö styttri handritin af Kötludraum nefna ekki glófina né bátinn.
  2. Tvö styttri handritin nefna Kár, en öll hin Kára.
  3. Tvö handrit af Kötludraum hafa Ara, en öll önnur handrit bæði í bundnum og óbundnum stíl hafa Kára.
  4. Öll handrit nema tvö hin styttri.
  5. Hér endar frásögnin eftir hinum styttri handritum er sleppa öllu sem á eftir kemur, en geta ein þess að þau Már og Katla hafi flutt byggð sína yfir Þverá, enda er það bæjarnafn ekki til neins staðar nærri Reykhólum.
  6. Ein munnmælasögnin segir að þegar Katla hafi gengið út úr híbýlum Alvarar hafi Kári sprungið af harmi er hann varð að sjá af Kötlu og þá hafi Alvör átt að segja: „Eins og ég verð nú að sjá upp á dauða sonar míns eins skaltu Katla verða að horfa á dauða Márs bónda þíns;“ enda hafi Már átt að drukkna; sumir segja í Grundará fyrir innan Reykhóla, en sumir segja í sjó.