Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kýrin í Hrútafirði

Úr Wikiheimild

Einu sinni var það á bæ nokkrum í Hrútafirði hjá fátækum bónda að hann eitt vor er gróa tók jörð lét út kú sína er hann átti, en var þó gefið að kvöldinu sem oft er venja þar sem taða er til; so var á þessum líka. Kom nú kýrin sjálf hvurt kvöld, en ætíð nokkru áður sá fólkið á bænum kú líka að lit koma sömu leiðina og hverfa undir klettahjalla er var þar allskammt burtu. Það hélt í fyrstu þetta vera sína kú, en er fram liðu stundir varð það þess vart að ei var so. Komst þetta í vana og var ei um sýslað, en framar venju hefur maður frá sagt er þar var á heimilinu að kýrin hafi unað þetta sumar og hvurki eftir né áður ein að ei þyrfti fá henni eitthvað síns kyns til skemmtunar.