Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Karítas í Búðardal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Karítas í Búðardal

Karítas Bjarnadóttir hét stúlka í Búðardal fyrir vestan er síðar bjó þar og þótti sómakona. Hún gekk einu sinni út úr baðstofunni í annað hús til að sækja vaðmál. En þegar hún kom inn aftur var hún mjög trufluð, öll ötuð í blóði og hélt á blóðugum hníf í hendinni. Álfamaður hafði komið til hennar, gripið um hendina á henni og ætlað að nema hana burt með sér. En hún hafði brugðið hnífnum og skorið hann þvert yfir um hendina; við það sleppti hann henni. Eftir þetta voru hafðar sterkar gætur á stúlkunni til að verja hana fyrir hefnd huldumanns þessa. Þremur árum síðar var hún látin fara í sel og önnur stúlka með henni er aldrei mátti láta hana vera eina. Einu sinni yfirgaf stúlkan Karítas sofandi drukklanga stund og gekk eitthvað út úr selinu; á meðan kom álfkona að Karítas þar sem hún lá sofandi og sagði: „Nú skal ég launa þér fyrir hann son minn.“ Greip hún svo í síðuna á Karítas svo hún vaknaði og varð aldrei heil síðan.