Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Karlinn í skemmunni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Karlinn í skemmunni

Á bæ einum var gamall maður í húsmennsku; var hann kallaður greindur og haldinn margfróður. Hann byggði skemmu einn saman bæði sumar og vetur og var heldur ómannblendinn. Tekið höfðu menn eftir því að hann hvarf stundum á laugardagskvöldum og sást ei aftur fyrri en á mánudögum. Drengur var á bænum sem oft kom í skemmu karls og hændist að honum, og tók karl því vel. Pilturinn spurði karlinn oft að því hvað hann færi á laugardagskvöldin. Karl eyddi því umtali, en forvitni piltsins jókst því meira; sárbeiddi hann karlinn að lofa sér einhvern tíma með sér. Karl færðist alltaf undan og kvað honum mundi engin heill af því standa, en hinn sókti því fastar á. Loksins lét þá karl til leiðast og hét að gjöra bón hans, þó með því skilyrði að hann segði aldrei frá því sem fyrir hann kynni að bera í samför sinni fyrri en að sér látnum og hagaði sér í öllu eftir sinni fyrirsögn og skipun. Pilturinn lofaði þessu.

Næsta laugardagskvöld, það var á áliðnu sumri, fóru þeir karl og pilturinn eftir háttatíma út fyrir túnið að hól einum stórum. Þegar þar er komið sýndist piltinum karl taka eitthvað upp úr vasa sínum og kasta á hólinn og tautaði eitthvað um leið; lýkst þá hóllinn upp. Þóttist pilturinn sjá þar bæjarþil og opnar dyr á; stóðu tvær stúlkur unglegar og hreinlega búnar i bæjardyrunum. Heilsaði karl þeim, en þær tóku glaðlega kveðju hans. Skaut þá piltinum skelk í brjóst, gleymdi loforði sínu og hljóp í burt heim á leið sem mest hann mátti og sagði engum frá. Þegar karl kom heim á mánudaginn segir hann við piltinn: „Svo fór sem ég sagði og þykir mér illt, verði þér þetta að ógæfu, en það mun ekki verða, getir þú þessa ekki við nokkurn mann meðan ég lifi og varist að koma að hólnum.“ Þessu hét pilturinn og efndi það, og er þess ekki getið að honum yrði þetta að neinu meini. En um huldufólk vildi hann aldrei heyra talað.