Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Karlsstaðahvammur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Karlsstaðahvammur

Á Rafnseyrarhlíð í Ísafjarðarsýslu er hvammur nokkur sem kallaður er Kallstaðahvammur og er hann kenndur við bæinn Kallstaði sem er kirkjujörð frá Rafnseyri. Í hvammi þessum er stór steinn sem sagt er að huldufólk sé í. Eitt vor þegar smalinn á Kallstöðum – sem var kvenmaður – fór að smala lofaði hún unglingsstúlku með sér. Svo stóð á að smalinn þurfti að fara upp í fjallið að sækja lambá, en sagði stúlkunni að bíða sín í Kallstaðahvammi. Stúlkan beið nú þarna og var að leika sér; verður henni þá litið upp að steininum og sýnist henni hann standa opinn. Sá hún þar sitja kvenmann inni og var hann að kemba barni með glóbjart hár. Sýndist henni hún svo standa upp, láta barnið fara innar í steininn. Síðan sýndist henni hún taka styttuband og fara að stytta sig. Þá varð stúlkan hrædd og tók til fótanna og hljóp á stað heim og sýndist henni kvenmaðurinn alltaf vera á eftir sér.

Nokkru eftir þetta var þessi sama stúlka á ferð með annari stúlku á þessari sömu hlíð skammt frá Kallstaðahvammi; vóru þær þá að fara út að Rafnseyri. Vegurinn liggur þar fram með sjó. Þegar þær koma út í svonefndan Húsahvamm sáu þær þar í sandbót einni við sjóinn kjölfar eftir eitt skip sem nýlega hafði verið sett, og slorugan vettling blautan og trýni þar á steini. Þær skoða þetta hvort tveggja því þær vissu að það gat ekki verið af mennskum mönnum, því bæði var þaðan ekkert útræði og allir menn við sjó út í Arnarfjarðardölum. Þær láta vettlinginn og brýnið á sama steininn og ætla nú að taka eftir hvert þetta verði þarna þegar þær koma aftur og setja nú vel á sig steininn. En þegar þær koma aftur var hvorutveggja horfið.