Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kerlingin í Jökulsárhlíð

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kerlingin í Jökulsárhlíð

Í Ketilsstaðalandi í Jökulsárhlíð stendur tindur einn eða drangi einstakur á sléttum sandi og eru tveir smádrangar hjá honum. Skammt þaðan er hellir einn. Hann á að liggja í gegnum Hlíðarfjall og koma út við sjó á Kattavíkurdal. Nú er hann ei nema opið eitt og er hrunið fyrir hann. Í helli þessum átti að hafa búið tröllkona ein mikil og ill. Hún fór einn morgun fyrir sólarupprás út til sjávar að sækja vatn. En er hún kom heimleiðis aftur mætti hún manni. Sá hét Dagur. Hann spurði hvert hún færi. Hún sagðist hafa sótt vatn út í sjó til að sjóða mann í. Þá sagði Dagur: „Líttu út á hafið.“ Hún gerði svo og sá þá sólina renna upp undan fjallsendanum. Brá henni svo við það að hún varð að dranga þeim er nú heitir Kerling, en skjólurnar eru hinir minni drangarnir.