Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kerlingin í Vatnsdalsfjalli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Landvættir hér á landi undu því allilla er kristni fór að breiðast hér út og þó þessa verst er kirkjur voru reistar. Skömmu eftir að kirkja var sett á Þingeyrum er sagt að nátttröll það sem átti byggð í Vatnsdalsfjalli hafi bitið illa á brisið og þótt sér nær gengið er þar var kirkja reist.

Nátttröll þetta var skessa; hún tók sig til eina nótt og ætlaði að hefna þessarar skapraunar. Hún gekk norður á Vatnsdalsfjallsenda eða því nær þar sem Öxl heitir, og af því hún hafði ekki annað hendi lengra en stafinn sinn greip hún til hans og kastaði honum og ætlaði að brjóta með því Þingeyrakirkju. En þegar hún hafði varpað stafnum litaðist hún um hvað tímanum liði, en þá ljómaði dagur í austri. Við það brá henni sem öðrum nátttröllum svo að hún hrapaði vestur af fjallseggjunum sem eru hár vegghamar og nam staðar á bring nokkrum spölkorn fyrir neðan hamrastallinn og varð þar að steinstöpli, og stendur hún þar enn í dag og er kölluð Kerling, upp undan bæ þeim sem dregur nafn af fjallsöxlinni er hún stóð á þegar hún kastaði stafnum og Öxl heitir. En það er að segja af stafnum að hann brotnaði sundur á fluginu og kom annar hlutinn niður ekki allfjarri Þingeyrakirkju því hann lenti á Þingeyrahlaði sunnanverðu og hefur hann verið hafður þar fyrir hestastein síðan; hann mun vera nærri þrjár álnir á lengd og ekki meir en tuttugu faðmar frá honum að kirkjunni þaðan sem hann var 1832. En hinn hluti stafsins kom niður fyrir sunnan Þingeyratún og er hann nokkru styttri. Hann er nú syðst í túntraðarhorninu til hægri handar er riðið er heim að Þingeyrum.