Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kindaleit í Þorskafirði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Kindaleit í Þorskafirði

Einu sinni var maður vestur í Þorskafirði að leita kinda. Hann leitaði árangurslaust allan sólarhringinn út og með því hann örvænti um að finna féð lagði hann sig fyrir að sofa örþreyttur. Þá þótti honum álfkona koma til sín í svefninum og segja við sig: „Litlum mun fórstu of skammt því ef þú leitar ögn lengra muntu finna fé þitt.“ Maðurinn vaknaði og fór eins og honum var kennt ráð til í drauminum og fann féð.