Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kirkjugarðurinn á Barði

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Kirkjugarðurinn á Barði

Svo stóð á að sóknarbændur áttu einu sinni að gjöra upp og hlaða kirkjugarðinn á Barði (aðrir segja á Holti) í Fljótum. Dag einn snemma voru þeir allir komnir þar til þess starfs nema karl einn; sá maðurinn þótti heldur grályndur og lítið við alþýðuskap. Leið svo fram á miðjan dag að karlinn kom ekki og þótti hinum að honum seinka. Um miðdegisbilið sáu þeir hvar karl kemur og teymir eftir sér gráan hest. Þegar karl kemur verður hann fyrir hrakyrðum hinna er áður höfðu komið að hann kæmi seint í samvinnuna. Karl lét sér ekki óðslega og spyr hvað hann skuli vinna. Vill þá svo til að honum er skipað í flokk með þeim er flytja áttu hleðslu í garðinn, torf og strengi, og lætur hann sér það vel líka. Gráni var mjög úfinn og illur við aðra hesta er voru í torflestinni, sleit sig aftan úr þeim, beit þá og barði, og þar kom að enginn hesturinn hélzt við fyrir honum. Þetta þótti flutningsmönnum mein mikið og kom þeim nú saman um að leggja á hann þeim mun þyngra, en það kom allt fyrir ekki. Hann fór eins léttilega með helmingi þyngri klyfjar eins og áður og linnti ekki fyrr látum en hann hrakti úr höndum þeim alla aðra hestana, og varð hann þá einn eftir. Karl tók þá klárinn og lagði á hann eins mikið og áður hafði verið lagt á alla hina hestana í hveri ferð og fór með hann á milli, og var hann þá spakur. Þannig flutti hann á Grána alla hleðsluna í garðinn. En er því var lokið tekur hann beizlið fram af honum undir kirkjugarðinum, þar sem hann var nýhlaðinn, og slær með beizlinu á lendar hestinum í því hann sleppir honum. Við það kunni Gráni ekki, setur upp rassinn og koma báðar lappirnar á kirkjugarðinn er hlaðinn hafði verið upp um daginn, og hrundi stórt skarð í hann og hefur það aldrei staðið síðan hvað oft sem það hefur verið hlaðið unz farið var að hafa það fyrir ganghlið út í kirkjuna. En það sást síðast til ferða klársins að hann brá á leik er hann var laus og linnti ekki fyrr en hann komst í Hólmsvatn; þóttust þá allir vita að þetta hafði verið nykur.