Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kirkjusmiðurinn á Reyni (2)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kirkjusmiðurinn á Reyni

Áður en kristni var lögtekin hér á landi vildi bóndinn á Reynir í Mýrdal byggja kirkju. Viðarins hafði hann aflað, en vantaði smiðinn og gat hvörgi fengið; frétti að norskir kirkjusmiðir væru á Hólum í Hjaltadal, reið því um sumarið til alþingis í von um að fala þá, en á þingi frétti hann þeir væru sigldir. Yfir þessu var hann í þungum þönkum.

Eitthvört sinn kom til hans maður ókenndur og spurði hvörnig honum gengi að fá smiði; bóndi sagði sér gengi illa. Gesturinn bauðst til að smíða kirkjuna fyrir hann. Bóndi spyr hvað hann héti; gestur kvað hann skyldi geta til, en hann sagðist ei vilja annað í smíðakaup en hann geti til nafns síns, og bregðist honum það skyldi bóndi fá sér í kaupið son sinn fimm vetra, lét sér lítast svo vel á drenginn að hann girntist hann mjög, gat svo um talað að bóndi lagði á hættu með samning þennan. Smiðnum gengur bæði fljótt og vel, en bóndi með aðstoð annara lætur teikna upp öll þau mannanöfn er fólk hafði heyrt, því smiðurinn sagðist heita algengu nafni. Þegar líður á smíðið fer bóndi að bera fram tilgátur sínar við smiðinn, en ekki kemur hans nafn. Bóndi leggst því dýpra og fleiri með honum og er allt forgefins. Þó hann geti ei haft neinn illan grun á smiðnum, því allt hans athæfi líkar honum mjög vel, vill hann þó síður en ekki missa sinn einkason. Kirkjan var sett nærhæfis sextíu föðmum niður frá bænum.[1] Bóndi gengur nú einförum í óyndi miklu upp í dal sem er neðan til í Reynisfjalli kippkorn upp frá bænum og sér ekki þaðan til bæjarins,[2] heitir nú á guð og helga menn sér til hjálpar. Út af víli þessu leggst bóndi niður og sofnar. Sér hann þá opnast litlar dyr vestan megin dalsins í hól sem þar er; þangað þykist hann ganga og sér þar kelling inn[i] halda á barni og kveða fyrir því aftur og aftur:

„Vertu góður drengur minn,
senn kemur hann Finnur faðir þinn frá Reyn
með þinn litla leiksvein.“

Eftir það vaknar bóndi og man drauminn. Til þessa nafns hafði hvörki hann né aðrir munað. Nú líður svo á smíðina, bráðum var búin, kaupið átti að greiða strax ef ekki var búið að finna nafnið. Bóndi flýtir sér niður að kirkju, því smiðnum gekk því betur sem á leið meira; þá er smiðurinn að festa brík yfir kórdyrnar; og segir svo að kirkja hafi þá verið algjör. Bóndi segir: „Senn ertú búinn Finnur minn!“ Smiðurinn formælti þeirri stund á hvörri bóndinn mælti þetta, kláraði ekki bríkina og hafði sig burt, en bóndanum notaðist vel verkið.

  1. Að líkindum mun það satt því nærri lætur það bil sem nú er milli kirkjunnar og forna Reynis.[Hdr.]
  2. Er og rétt lýst þessu landslagi svo líklegt er höfundurinn hafi verið kunnugur á Reyni. [Hdr.]