Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kleppa

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kleppa

Bær sá liggur fremst í Staðardal er Kleppustaðir heita og dregur bærinn nafn af Kleppu tröllkonu er þar átti bú á dögum Finnboga hins ramma. Fyrrum hafa eflaust verið margar sögur af Kleppu, en nú eru aðeins eftir af þeim sundurlaus munnmæli og skal hér geta hins helzta er nú gengur í munnmælum:

Kirkja sú er nú er á Stað í Steingrímsfirði var þá framar í Staðardal í svonefndum Kirkjutungum, en Kleppa var heiðin og amaðist mjög við hinum nýja sið. Kleppa átti hof fyrir handan Staðará (þá hét á þessi Ljótá og dalurinn Ljótárdalur) niður á Hrófbergseyrum og sjást enn aurmál þess.

Einhverju sinni bar svo við að hún ætlaði að ríða hesti sínum er Flóki hét til hofs síns en reið þó til hofsins og framdi blótskap. En er hún hafði því lokið reið hún aftur og krækti fram að Farmannsdalsá og brá fæti sínum á steinboga þann, er á var ánni og kirkjuvegur dalbúa lá yfir, og braut hann. Aðrir segja að hún hafi höggvið hann með öxi og líti svo út enn sem höggvið sé skarð í hann.

Meðan Kleppa var að þessum starfa voru menn að hlýða messu í Kirkjutungu. Svo var henni illa við kristni og kirkjur að hún kvað sauðamjólk sína ramma þegar ásauður sinn rynni framan úr dal og um eyrar þær er þá voru nefndar Sléttur, en nú heita Bríkur; stendur þar nú bærinn Staður og kirkjan. Kleppa nytjaði að sönnu ásauð sinn þótt hann kæmi á eyrarnar, en hellti niður mjólkinni. Kleppa lét Flóka hest sinn ryðja veg um tungur þær er síðan eru kallaðar Flókatungur. Einnig flutti hún á honum stórviðu norðan af Ströndum.

Eitt sinn kom Kleppa norðan af Ströndum og bar við á Flóka, drögur miklar, og voru tré þau höfð í stoðir í Staðarkirkju er hún var reist því hún lét þau eftir vera á Staðareyrum, og kom það til af því er nú skal greina: Þá er Kleppa kom á Staðareyrar heyrði hún klukkur gjalla í Kirkjutungu; varð henni þá svo mikið um að hún reif ofan drögurnar og lét þær liggja eftir, en hélt með hest sinn heim til sín. En er hún var heim komin tók hún í skyndi saman allan varnað sinn og gripi og reið af stað Flóka hesti sínum; fór hún upp Flókatungur og fjallasýn fyrir alla dalbotna og létti ekki fyrr en hún kom í Trékyllisvík. Þar bjó þá Finnbogi rammi og bað hún hann við sér taka og það gjörði hann. En skamma hríð átti Kleppa þar samt athvarf því ekki leið langt áður Finnbogi reisti kirkju á búi sínu í Bæ. Varð þá Kleppa mjög amasöm og andvíg við hann; tók hún eitt sinn snæri og klippti gras af grundum þeim er skammt liggja frá bænum og mælti svo um að þar skyldi ekki gras spretta framar; eru þær og graslitlar enn í dag, en áður áttu þær að hafa verið loðnar mjög. Þótti þá mönnum Finnboga eigi vært að búa við Kleppu og buðust synir Finnboga til að ráða hana af dögum, en hann kvaðst vera einfær um það og ekki þurfa þeirra liðs til þess. Skömmu síðar réð Finnbogi henni bana.

Sumar sagnir segja að Kleppa hafi gift verið og hafi Skerpingur heitið bóndi hennar og búið að Skerpingsstöðum gagnvart Kleppustöðum sunnanvert við Staðará, og heita þar nú Skerpingsstaðir. Sú jörð er nú í eyði, en rústir sjást þar enn.