Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kleppa tröllkona

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Kleppa tröllkona

Tröllkona ein í fornold hét Kleppa, blótkona mikil, og bjó hún á Kleppustöðum í Staðardal í Steingrímsfirði. Hinumegin árinnar í Staðardal átti hún hof mikið og er það nú eyðikot sem heitir Hofstaðir, en neðar í dalnum stóð kirkja kristinna manna í Kirkjutungnafjalli sem kallað er. Ár renna eftir Staðardalnum og falla saman neðan til við miðjan dalinn og var þar steinbogi yfir árnar.

Einn jólaaftan þegar fólk var við aftansöng kom Kleppa kerling neðan dalinn og ætlaði að kirkjunni; sjá menn þá til ferða kerlingar og er hún var komin á miðjan steinbogann hringdu menn klukkum öllum í kirkjunni. Varð þá kerlingu svo bilt við að hún spyrnti í sundur steinboganum þegar hún ætlaði að snúa til baka, og komst þannig nauðuglega í burtu.

Þegar fé hennar einhvörju sinni hafði bitið gras á Staðareyrum sem vóru eign kirkjunnar varð kerlingu svo illt af mjólkinni að hún fékk mikla uppsölu af henni.

Kerling átti hest einn traustan er Flóki hét og sókti hún á hönum stórviði til hofs síns og bæjarhúsa norður í Trékyllisvík. Á þessum hesti sótti hún líka skreið vestur á Langadalsströnd yfir Steingrímsfjarðarheiði. Bjó hún þá til veg upp úr Staðardalnum upp á heiðina í átján sneiðingum upp tungur sem kallaðar eru Flókatungur, og herti þá svo mjög að hestinum með að draga grjót úr sneiðingunum að hesturinn drapst þar. Eftir þetta varð kerling að fara fótgangandi og fór hún oft eftir þetta norður í Trékyllisvík. Bjó þá Finnbogi hinn rammi þar norður og hafði reista kirkju á bæ sínum. Glettist þá Finnbogi oft við kerlinguna með því að hringja klukkum þegar hún ætlaði af stað úr víkinni með byrðar sínar, en henni varð þá ætíð svo hverft við þegar hún heyrði klukknahljóminn að hún kastaði byrðinni og stökk burtu. Varð svo um síðir fullur fjandskapur milli Finnboga og kerlingar; var það einhverju sinni að kerling af stríði við Finnboga klippti gras allt af grundunum fyrir neðan Finnbogastaði og pissaði þvílíkt flóð ofan yfir allar mýrar í kringum bæ hans að þær eru ávallt blautar síðan. Loksins fóru svo leikar með þeim Finnboga og Kleppu að hann sat fyrir henni og glímdu þau á flöt einni nálægt bæ hans er síðan heitir Glímuflöt, og gat Finnbogi fellt þar kerlingu og vann þar á henni. Lét hann síðan húskarla sína draga kerlingu upp í mýrarnar og verpa yfir hana haug mikinn sem enn heitir Kleppa.