Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kola á Kolugili

Úr Wikiheimild

Kolugil heitir bær einn framarlega í Víðidal fyrir austan Víðidalsá. Þar bjó tröllkona ein sem Kola hét og dró bærinn nafn af henni. Fyrir neðan bæinn er dimmt og djúpt gil að Víðidalsá og foss einn í gljúfrinu svo hár að enginn lax fer yfir hann og því er engin veiði framar í ánni en í kerinu undir fossinum. Gilið er ekki afar breitt þó það muni ófært flestum mönnum nú yfir að stökkva, en fyrir vestan Víðidalsá að vestanverðu í gljúfrunum er enn kallað Kolusæng;[1] það [er] sylla ein í vestra gljúfrinu nokkuð lægri en gilbrúnin og standa upp háir hamrastallar að framanverðu á syllunni til beggja hliða, en lægð er nokkur í milli hamrastallanna. Þeir stallar segja menn að séu bríkurnar á rúminu, en þar sem syllan er lægst um miðjuna seildist Kola ofan úr rúminu á morgna er hún vaknaði, ofan í kerið undir fossinum og tók þar laxa og át á fastandi maga. Skammt frá Kolusæng er hola mikil í bergið að vestan, það er kallaður Koluketill. Átti hún að hafa soðið í honum laxinn sem hún veiddi í kerinu. Eggert Ólafsson segir að Tröllkonurúm skuli vera fimmtán álna langt og átta álna breitt og má vel vera að það láti nærri, en þó ætla ég það minnst tiltekið.

  1. Tröllkonurúm, eftir Ferðabók Eggerts og Bjarna, Rvík 1943, II. bd., 85. bls.