Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Konan á Breiðavaði
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Konan á Breiðavaði
Konan á Breiðavaði
Á Breiðavaði í Eiðaþinghá var kona sem út kom síð um kveld; þá var tunglskin og sá hún tvo menn koma að bænum. Það sá hún og að annar þeirra benti til sín með fingri á hægri hendi og þegar fær hún verk í augað annað so hún varð að grípa fyrir það, og er hún leit upp aftur sá hún engan mann. Gengur hún þá inn aftur. En er hún kom í baðstofuhitann elnaði henni so verkurinn að hún gat ekki sofnað um nóttina og um morguninn var augað blátt og þrútið, og þá fór hún út að Eiðum til séra Gríms sem þar var prestur og sýndi honum þessa meinsemd. Sagði hann að hún hefði séð huldumann af verra tagi, fór hann so með hana í kirkju og vígði messuvín og lét það drjúpa í augað; þá dró úr allan verk og varð hún aftur heil heilsu sinnar.