Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Konan á Skúmsstöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Konan á Skúmsstöðum

Á Skúmsstöðum í Landeyjum í Rangárvallasýslu bjó forðum bóndi; hann átti sér konu ásjáliga og mörg börn. Einhverju sinni um vetrartíma í rökkri var bóndi út í heygarði, en konan inni við að matselja. Kemur þá til hennar maður er hún hafði aldregi fyrr séð og biður hana að hjálpa konu sinni sem sé í barnsnauð. Hún telst undan á allar lundir og segist það aldrei gjört hafa. Hann biður hana því betur þar til konan játar að hún skuli með honum fara. Ganga þau svo þangað til þau koma að háum hól. Lýkst þá hóllinn upp og maðurinn gengur inn, en konan leggur vettlinga sína upp á hólinn fyrir ofan dyrnar, því þá eiga menn aftur út að komast. Maðurinn sagði hún skyldi vera óhrædd og ganga þau síðan inn í hólinn. Þar sér konan ekkert nema eitt rúm og konu í. Stuttu eftir kom barnið og fer hún með það eins og vani var til. Lýkur þá heimamaður upp kistli einum og tekur þar stein einn og biður hana að nudda honum um augu barnsins. Konan skilur eigi í hvað þetta á að merkja og hugsar með sér það geti þó varla orðið sér að meini þótt hún nuddi steininum um annað auga sitt og gerir hún svo, svo heimamaður verður eigi var við. Sér hún þá fólk á gangi um hólinn og sumt sitja að vinnu, en lætur eigi neitt á því bera. Síðan fylgir huldumaðurinn henni heim til sín og þakkar henni komuna.

Um sumarið fór bóndinn út á Eyrarbakka með vörur sínar og var kona hans í för með hönum. Hann verzlaði við kaupmanninn á Eyrarbakka og heldur síðan heim á leið og liggur við Þjórsá hjá Egilsstöðum. En um kvöldið fékk konan eigi sofnað og er hún hefur legið vakandi um hríð lítur hún undan tjaldskörinni. Sér hún þá með yfirnáttúrlega auganu mann koma að mjölsekkjunum, leysa frá þeim og taka sinn hnefa úr hverjum poka og láta í belg er hann bar undir hönd sinni. Og er hann hafði hartnær fyllt belginn mælti konan til hans: „Því gjörir þú þetta?“ Hann lítur upp á hana stórum augum og mælti: „Því sér þú mig?“ Blæs hann þá á hana svo hún fann glöggliga. Sá hún hann þá eigi framar og eigi neinn huldumann upp frá því.