Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Konan sem sá huldumann eða huldumenn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Konan sem sá huldumann eða huldumenn

Kona nokkur á Breiðavaði í Eiðaþinghá kom út eitt kvöld í tunglskini. Þá sá hún koma tvo menn að bænum og þegar þeir nálægðust og hún sá þá vel, þá sér hún það að þeir nema staðar og sér hún að annar bendir til sín fingri á hægri hendi og jafnskjótt og hann gjörir það þá fær hún óþolandi verk í augað svo hún grípur fyrir augað, en þegar hún lítur upp aftur sá hún öngvan mann og fór með þetta inn, en þegar hún kom í hlýjuna fekk hún óþolandi pínu aftur í augað og gat ekki sofnað einn dúr um nóttina, en um morguninn var augað orðið blátt og fór hún þá strax út að Eiðum og sýndi séra Grími á sér augað því hann var þá prestur á Eiðum, og sagði hann að það hefði verið huldumaður sem hún hefði séð og hefði hann verið af verra tagi, og fór með hana út í kirkju og tók messuvín og vígði og krossaði augað og lét þar í messuvínið og þá varð hún óðar heilsýn – og er þetta ekki lengra.