Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Konuhvarf í Hnefilsdal
Konuhvarf í Hnefilsdal
Það var trú manna fyrrum að ekki mætti ein kona eiga allan Hnefilsdal, hún yrði þá numin burt af álfum. Melhólar tveir eru í landinu, stærri og minni, sem standa saman, kallaðir Mælirshólar. Á þeim var mikil trú að þeir væri álfasetur. Brynjólfur biskup Sveinsson þá hann vísiteraði Austfjörðu gjörði sér ferð þangað með Sigfúsa presti tómassyni í Hofteigi til að skoða hólana, gekk umhverfis þá berhöfðaður og sagði síðan við prest: „Gott fólk í minna hólnum, en misjafnt í þeim meira.“ „Svo er sem þér segið herra,“ sagði prestur.
Eitt sinn er þess getið að bóndinn í Hnefilsdal átti eina dóttir barna. Þegar hún var fullvaxta sagði hún að maður einn kæmi oftlega til sín og léti mjög blíðlega við sig; um þetta kvartaði hún oft með miklum áhuga. Þetta gekk nokkurn tíma. Hún kvað sig angra þetta því hann vildi ná sér til sín; hún mundi ekki geta varizt þessu því hann væri sér mjög blíður og elskulegur, byggð hans væri í Mælirshól, bað menn gæta að sér vandlega, annars mundi verr fara. Þessu var enginn gaumur gefinn, þó hún með trega bæði þessa. Eftir þetta hvarf hún burtu. En tvo nýjársdaga eftir þetta var hún við messu í Hofteigi glöð og hress, sagði kunningjakonum sínum að sér liði vel; maðurinn sem hún væri hjá breytti í öllu vel við sig og væri sér góður. Að því gáðu menn þá hún gekk inn kirkjugólfið var á henni festi. Skyggnir sáu líka manninn. En þriðja nýjársdag um messutímann var líkkista sett fyrir kirkjudyr í Hofteigi ofan á hvörri lá messuhökull vandaður mjög. Enginn sást maðurinn. Svo var líkið jarðað. En um kveldið heyrðu menn í Hofteigi kveðið sorgarkvæði hástöfum með trega miklum og farið oftlega með það svo menn numdu það. Ég talaði við gamla menn sem heyrðu með það farið; það voru nokkur erindi. Það seinasta heyrði ég og er það svona:
- „Frelsarinn þinn sé huggarinn minn,
- mýn hýrust meyja.
- Flytji hann mig í friðstaðinn
- þá fer ég að deyja.
- Mína tungu gjöri ég ei lengur móða.
- Lukkuna fáðu laukaskorðan rjóða.“
Þóttust menn vita að það mundi konan sem hvarf frá Hnefilsdal er flutt var lík að Hofteigi og héldu hún hefði dáið af barnsneyð, þóttust skilja það af sorgarkvæðinu.
Ýmislegt fleira heyrðu gamlir menn um þetta efni, en get ekki fleira til tínt.