Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kort frá Möðruvöllum og sjóskrímslið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kort frá Möðruvöllum og sjóskrímslið

Kort heitinn Þorvarðarson frá Möðruvöllum í Kjós réri einu sinni sem oftar vetrarvertíð og lá við í sjóbúð einni sem fleiri lágu við, einhverstaðar suður með sjó. Fyrir búðinni var skrá sem hvorki varð læst né lokið upp nema með lykli. Eina nótt var það er þeir höfðu lokað búðinni um kvöldið að innan og allir voru sofnaðir að Kort dreymir að honum þykir einhver ófreskja koma inn í búðina og taka í hendina á sér. Þykist hann þá standa upp og fara með henni inn undir rúmið og teymir skrímslið hann þar út í gegnum búðarvegginn, en það þótti Kort þröng leið. Eftir það leiðir skrímslið hann ofan í fjöru og fram að flæðarmáli; finnur hann þá að það vill koma sér í sjóinn, en þá þykist hann hamast í svefninum, eins og hann átti stundum vanda til, og tók þá ómjúkt á skrímslinu og lauk svo með þeim að Kort bar hærri hlutann og kom því í sjóinn. Í því vaknaði hann, stóð hann þá niður við flæðarmál í nærfötunum einum eins og hann hafði lagzt út af um kvöldið. Hugsaði hann þá fyrst að hann hefði gengið þangað í svefni; en þegar hann kom heim að búðardyrunum og fann þær læstar eins og gengið hafði verið frá þeim um kvöldið svo hann komst ekki inn fyrr en hann vakti lagsmenn sína og þeir luku upp fyrir honum, fór hann að gruna að einhver brögð hefðu önnur verið í tafli en svefnganga ein og að þetta hefði verið svo í raun og veru sem fyrir hann hafði borið í svefninum.