Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Krossgötur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Krossgötur

Sumir segja að krossgötur sé þar, t. d. á fjöllum eða hæðum, sem sér til fjögurra kirkna. Elzta trúin er sú að menn skuli liggja úti jólanótt því þá er áraskipti, og enn í dag telja menn aldur sinn eftir jólanóttum og sá er t.d. kallaður fimmtán vetra sem hefur lifað fimmtán jólanætur. Síðar færðu menn ársbyrjanina á nýjársnótt.[1]

Þegar menn sitja á krossgötum þá koma álfar úr öllum áttum og þyrpast að manni og biðja hann að koma með sér, en maður má engu gegna; þá bera þeir að manni alls konar gersimar, gull og silfur, klæði, mat og drykk, en maður má ekkert þiggja. Þar koma álfakonur í líki móður og systur manns og biðja mann að koma, og allra bragða er leitað. En þegar dagur rennur þá á maður að standa upp og segja: „Guði sé lof, nú er dagur um allt loft.“ Þá hverfa allir álfar, en allur þessi álfsauður verður eftir og hann á þá maðurinn. – En svari maður eður þiggi boð álfa þá er maður heillaður og verður vitstola og aldrei síðan mönnum sinnandi. Því varð manni sem Fúsi hét og sat úti jólanótt og stóðst lengi þangað til ein álfkonan kom með stóra flotskildi og bauð honum að bíta í. Þá leit Fúsi við og sagði það sem síðar er að orðtæki haft: „Sjaldan hef ég flotinu neitað;“ beit hann þá bita sinn úr flotskildinum og trylltist og varð vitlaus.

  1. Í Orkneyinga sögu, 66. kap., er og sagt að Sveinn [brjóstreip] hafði útisetu jólanótt.