Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ljáðu mér bussann þinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Ljáðu mér bussann þinn“

Þegar Sigríður Þorgilsdóttir var barn og verið var að sjóða fyri jólin þá sat hún út á fjóspalli. Veður var fagurt og skein tunglið inn um skjágluggann á pallskákina. „Ljáðu mér bussann þinn, Sigga mín!“ var sagt við hana. Hún rétti hnífinn og hélt það vera móður sína. Að stundu liðinni leit hún á pallinn. Lá þá hnífurinn hennar á tunglsgeislanum og ketbiti hjá. Borðaði hún hann. Móðir hennar hafði aldrei í fjósið komið á þeim tíma og engi annar.

Sigríður fæddist 1758 og bjó seinna í Vallatúni. Hún var móðir Guðrúnar (f. 1784) á Fornusöndum móður Hjerónímusar Hallssonar á Miðskála er þar býr nú (1862).