Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ljóðmæli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ljóðmæli

Að síðustu set ég hér fáein ljóðmæli sem lýsa betur en allt annað sem ég hef séð búningi huldufólks. Eru fyrstu vísurnar þrjár skrifaðar upp vestur á Skarðsströnd 1858 af Sigurði málara Guðmundssyni.

1.
Skónála-Bjarni í selinu svaf;
segja vil ég þér nokkuð þar af:
Kom til hans álfkona fögur og fríð,
sá hann enga vænni um sína lífstíð.
2.
Á bláu var pilsi, en beltið var vænt
bundið um ennið silkiband grænt,
skautafald háan, hvítan sem ull,
á hendinni bar hún þríbrotið gull.
3.
Fæturnir voru rauðir sem rós,
rétt voru lærin fögur sem ljós,
hofmannastaðurinn hærður svo vel
sem hnakki á sólþurrum kópsel.

Maður hét Jóhann; hann bjó á Egilsstöðum í Vopnafirði og var kallaður hinn þýzki. Hann var uppi á sama tíma og Brynjólfur biskup í Skálholti. Frá því er sagt að smalastúlka hans gekk einu sinni til sauða. Skarð er í fjallinu upp af bænum sem kallað er Kvíslarskarð. Þangað gekk hún til sauðanna. En þegar hún kom heim mælti hún þetta fram:

1.
„Kom ég upp í Kvíslarskarð,
kátleg stúlkan fyrir mér varð;
fögur var hún og fríð að sjá,
fallega leizt mér hana á.
2.
Blátt var pils á baugalín,
blóðrauð líka svuntan fín,
lifrauð treyja, lindi grænn,
líka skautafaldur vænn.
3.
Ekkert hafði ég af henni tal,
undir sat hún sínum sal;
opið stóð þar bergið blátt,
beint var það í hálfa gátt.
4.
Kópur aldrei kjafti hélt,
kátlegt hafði hann urr og gelt;
sauðir höfðu sig af stað;
seimaskorðin gáði að.
5.
Laukaskorðin leit þá við,
lengur hafði hún ei bið,
inn í steininn arka vann;
aftur luktist sjálfur hann.“

Og enn eru þessar stökur hafðar eftir manni sem átti að hafa séð álfa og híbýli þeirra, og er þetta hvort tveggja tekið eftir blöðum frá Sigurði presti Guðmundssyni á Desjarmýri:

1.
„Eitt sinn kom ég á Orustuhól,
og var liðið degi;
lagði ég mig undir lítið ból,
langt mér þótti eigi.
2.
Sá ég hvar í gljúfrum grá
gluggur stóð á móti;
maður kom út í möttli blá
með miklu skúfaspjóti.
3.
Að mér kastar orðum hraður
þá aðrir vóru að snæða:
„Sofðu ei lengur, sæmdarmaður;
um svik er verið að ræða“.“