Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ljósmóðir sótt til huldukonu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Ljósmóðir sótt til huldukonu

Yfirsetukonu dreymdi eitt kvöld þá hún var nýsofnuð að til hennar kom huldukona og bað hana fljótt koma og hjálpa dóttur sinni sem þá var í barnsnauð. Ljósmóðurin hrökk upp úr svefni við drauminn og sá aðeins á eftir þeirri ókenndu konu fram úr baðstofunni, klæddi sig það snarasta og gekk út. Var þá huldukonan út fyrir dyrunum sem strax fór á stað og ljósmóðurin á eftir að einum hól skammt frá bænum og með það sama inn í hólinn. Var þá eins ástatt þar og hana dreymdi. Strax sem hún hafði höndur á stúlkunni fæddi hún barnið. Þegar búið var að lauga barnið tók huldukonan smyrsl úr bauk og bar í augu barnsins. Bað þá ljósmóðir konuna að bera í annað auga sitt þessi smyrsl hvað hún og gerði. Útleysti svo huldukonan ljósmóðurina með gjöfum. En næsta sumar eftir fór ljósmóðirin í kaupstað; en þegar hún kom í krambúð sá hún og þekkti huldukonuna fyrir innan borð og var hún að taka þar sitt af hvurju úr skápunum og láta niður hjá sér. Talaði þá ljósmóðir til hennar og sagði: „Því gerirðu þetta, heillin? Máske að saklausum verði kennt það.“ Gekk þá huldukonan til hennar og blés í það hennar auga sem hún hafði áður borið smyrslin í svo hún varð ei skyggn framar.