Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ljúflingsmál

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ljúflingsmál

Einu sinni varð bóndadóttir þunguð af huldumanni og fæddi barn. En enginn vildi trúa þeirri sögusögn hennar um faðerni barnsins, og urðu foreldrar hennar ævareiðir af því að barnið væri föðurlaust og lögðu fæð á dóttur sína. Það var einhverju sinni um kvöldtíma að barnið æpti og gat móðirin með engu móti huggað það. Þá atyrtu hana allir þeir er við voru staddir og lagði hver þeirra henni og sveininum eitthvað hnjóðsyrði til svo hún fór að gráta. Þá er mælt að ljúflingsmál hafi verið kveðin á glugganum upp yfir henni og barninu og hafi það orðið að áhrínsorðum sem í kvæðinu stóð og pilturinn orðið afbragð allra manna er þá voru uppi. En þegar hann fór að eldast segir sagan að hann hafi horfið og móðir hans með honum og hafi faðir hans verið ljúflingur sá er kvæðið kvað.