Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Mállausubakkar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Mállausubakkar

Einhvern tíma voru tvær konur að raka ljá í miðmýrinni í Pétursey langt nokkuð fyrir vestan svokallaða Gvendarbakka, í hryssingsveðri og regnkalsa. Óskaði þá önnur þeirra til sín heitum graut. Að góðum tíma liðnum sér hún hjá þeim heitan graut og góðan með tveim spónum. Tók hin þessari sendingu með þökkum og hóf grautinn með beztu lyst, en sú er óskaði áræddi það ekki. En er hún hafði borðað nægju sína skar hún silfurmillur af upphlut sínum og lét í trogið.

En er trogið var tekið var talað til stúlkunnar þeirrar sem óskaði, en neytti ekki, að hún skyldi ekki oftar óska til að ganta aðra. Varð hún mállaus upp frá þessu og því heita bakkar þessir enn í dag Mállausubakkar.