Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Mælifells-Skjóni

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Jón hét prestur er sat að Mælifelli í Skagafirði; hann þótti heldur fornlyndur og lék það orð á að hann ætti kynni við álfafólk. Það bar til eitt sumar sem oftar að prestur reið suður um land til skreiðarkaupa og með honum maður einn. En er þeir voru á heimleið komnir norður yfir fjöllin og höfðu nokkra hesta undir klyfjum, þá ríður prestur nokkuð aftari, en maðurinn rekur hrossin fyrir. Heyrist honum þá sem prestur mæli nokkrum sinnum í lágum rómi: „Haf þú þolinmæði; ég kem bráðum.“ Síðan reka þeir enn klyfjahrossin um hríð unz þeir koma ofan fyrir leiti eitt; þá segir prestur við lestamann sinn: „Við skulum kippa hér ofan af hestum vorum og láta þá grípa niður um stund, en ég þarf að ríða lítinn spöl til baka, því ég hefi týnt litlum hlut úr vasa mínum og mun ég hverfa aftur að leita hans, en þú bíð mín hér á meðan og gæt hestanna.“ Síðan taka þeir af hestunum, en prestur ríður aftur upp fyri leitið og veit hinn ei meira um ferð hans. En að liðnum eyktartíma kemur prestur aftur og er þá nokkuð ölglaður, að hinum virðist. Leggja þeir síðan upp lestina og ber ekki til tíðinda unz þeir koma heim. Líður so af sumarið og veturinn að ei verður til frásagna, en um vorið einn góðan veðurdag lætur prestur reka heim hross sín til manskurðar, en er hrossin koma heim er þar foli einn brúnskjóttur, fjögra eða fimm vetra, ókunnur, kominn saman við hesta prests og vill ei við þá skilja. Þeir segja presti þessa sögu; hann bregzt ei mjög ókunnliga við og biður þá skynja um mark á folanum, og er svo gert og sjá menn þá að á honum er laukrétt mark prestsins. Segir prestur þá að þeir muni láta hestinn vera með hrossum sínum meðan engi leiti hans né lýsi eftir honum, og er svo gert og tekur hann þar stöðu og ríður prestur honum jafnlega á annexkirkju og í sóknir sínar og fellur allvel við klárinn, en þykir hann þó nógu fjöraður.

Kona prests er oft að biðja hann að lofa sér að koma á bak Skjóna, en hann er tregur til og uggði að hún mundi trautt fá setið hann eða stýrt honum. Einu sinni ríða þau hjón í kaupstað; ei er greint hvern eða hvert, en er þau skulu heim aftur þá segir konan við prest: „Nú lofarðu mér að ríða honum Skjóna heim.“ Prestur var nokkuð vínglaður (en þó ei vinglaður) og segir: „Hvað ætli það sé annað en lofa þér einu sinni að fá fram vilja þinn,“ – og biður menn sína leggja konusöðul á Skjóna sinn, og er svo gert. Síðan er búin lestin og ríða þau hjón litlu á eftir lestinni og er Skjóni nú mót venju so þungur og tregur að konunni þykir lítið til koma að ríða honum, en er prestur finnur það lætur hann Skjóna komast fram fyrir sig og reiðir upp keyrið og segir: „Hvað er þér Skjóni, að vera sona þungreiður?“ og kemur lítið eitt við lendina með keyrinu. En er Skjóni finnur það bíður hann ei boðanna, en þýtur af stað sem kólfi skyti svo konan ræður engu við að stilla hann, en stritast þó við að sita. Skjóni þýtur sem vindur fram hjá lestinni, so prestur sér ekki á eftir, en er dauðhræddur um konu sína á honum, en hann heldur beinu striki allt að Jökulsá eða Héraðsvötnum og yfir þau, en konan heldur sér dauðahaldi í faxið, og ei gefur hann staðar fyrr en heim á Mælifellshlaði og þar getur konan fyrst komizt af baki bæði hrædd og fegin. Presturinn reið á eftir allt hvað af tók fljúgandi hræddur að hann mundi einhverstaðar hitta konu sína af baki fallna og limlesta. En er hann kom heim í hlað góðri stundu síðar en hún þá kemur hún út á móti honum og fagnar vel bónda sínum og segir: „Það er hvort tveggja að þú munt ekki oftar bjóða mér Skjóna þinn til reiðar, enda mun ég ekki oftar beiðast hans hjá þér, því aldrei hef ég hræddari lifað en um hríð meðan ég var upp á Skjóna og tel ég það sérlega guðs varðveizlu yfir mér að ég hafði ekki slys þar af.“ Prestur lét það sannast mundi er hún sagði og ræddu þau ei meir þar um.

Nú líður og bíður svo ekki ber til tíðinda fyrr en á einu hausti að menn skyldu fara í fjáreftirleitir sem lengst mátti verða; þá kemur prestur að máli við ráðsmann sinn: „Nú vil ég biðja þig að fara í eftirleitir héðan með öðrum héraðsmönnum og mun ég ljá þér Skjóna minn til reiðar. Þið munuð ríða í fulla tvo daga unz þið komið fram í öræfi; þar munuð þið tjalda við tjörn eina, en gæt þú þess vel ef Skjóni gerir þér nokkra vísbendingu, þá bíð þú ei við og reyn að koma lagsmönnum þínum á leið með þér, þó mig uggi það muni trautt takast, því mér segir þungt hugur um hvernig þessi ferð útleiðist.“ Ei er getið fleiri orða prests og svo ríður ráðamaður af stað og förunautar hans og ei er sagt af ferð þeirra fyrr en þeir að kveldi annars dags koma fram á öræfi þau sem fyrr er getið. Þar slá þeir tjöldum sínum; höfðu þeir haft veður gott til þessa, en nú tók heldur að gera himin þykkan og hríðarlegan. Menn þeir sem í ferðinni voru voru flestir kátir og keskifullir og höfðu ýmsan gárungaskap að gamni sér í orði og verki, og gekk því langt á kveld fram, en að lyktum fóru menn að taka á sig náðir. En er ráðamaður prests var nýsofnaður heyrist honum Skjóni hneggja hjá tjaldinu og gefur hann því lítinn gaum og sofnar aftur, en er hann var varla sofnaður hneggjar Skjóni annað sinn og krafsar fæti í tjaldskör beint þar sem ráðamaður liggur inni fyrir, og vaknar hann nú alveg, kippir skóm á fætur sér og gengur út og litast um, og er þá komin á karskahríð og útlit sem ljótast, og tjörnin eða stöðuvatn það er þeir tjölduðu við allt tekið til að bólgna upp og komið nálega undir tjöldin, er voru tvö eða þrjú alls. Ráðsmaður kallar að lagsmönnum og sveitungum sínum sem hann má mest og segir þeim hver háski þeim sé búinn, en engi þeirra getur vaknað né lætur sem heyri, og fær hann með engu móti vakta þá. Kastar hann þá söðulreiði á Skjóna sinn og stígur á bak og sér þó ei fyri hríð og náttmyrkri hvað halda skuli; leggur hann þá lausan taum á makka Skjóna og lætur hann ráða ferðinni. Skjóni heldur áfram í nátthríðinni og veit hann ekki hót hvert hann heldur. Líður svo af nóttin og er snjóhríðin söm og jöfn og dyngjar niður snjó svo miklum að slétt er af öllum götum. Skjóni heldur áfram samt og jafnt í hríðarbylnum allan daginn og nóttina eftir og annan dag allt að kveldi fram. Þá sér ráðsmaður að svartmarar fyrir þústu nokkurri og nemur Skjóni þar staðar. Fer hann þá af baki og þreifast fyrir og kennir hann þá að Skjóni stendur við hesthúsdyr sínar í Mælifellstúni. Er þá húsið opnað og kemur prestur þar út, eigandi Skjóna, og fagnar allvel komendum. Var þar vel fyrirbúið; hey nóg og gott í stalli Skjóna og svo vatn. Hafði prestur þar beðið og gengið um gólf í húsinu frá því fyri miðaftan.

Segir nú ráðsmaður honum ið ljósasta af ferðum sínum, en prestur lét það farið hafa nær hugboði sínu og engi mundi aftur koma hinna annara, og varð það og svo því hríðin hélzt nærri viku. En á næsta sumri eftir fer ráðsmaður við nokkra menn fram í þessi sömu öræfi og fundu stöðuvatnið og virtist ráðsmanni það þá miklu stærra en haustinu áður og fundu þeir þar allt ein hesta- og mannabein með vatninu og á vatnsbarminum, og er það vatn síðan almennt nefnt Beinavatn. En er Skjóni var orðinn átján eða tuttugu vetra, þá hvarf hann um haustið og fannst hvergi dauður né lifandi, en þá gerði veturinn eftir svo harðan og illan að flestir felldu meiri hluta fjár síns og svo lá við sjálft að prestur mundi fella gripi sína því lítt hafði heyjazt og nýtzt um sumarið.

En það var ætlan manna að þá er prestur kom úr suðurferðinni fyrri og reið eftir samferðamanninum og þessi heyrði hann segja nokkrum sinnum lágum rómi: „Hafðu biðlund við; ég skal koma senn,“ – þá hafi huldumaður nokkur beðið hann að hjálpa konu eða dóttur sinni í barnsnauð og það hafi prestur afrekað meðan hann lét lestamann sinn æja hestunum unz hann aftur kæmi. En þessa varð svo víst löngu síðar að þegar sonur prests var orðinn búandi á hálfu Mælifelli og prestur búinn að leggja af sér brauðið þá var það einn vetur að þessi maður stóð yfir fé sínu fram á Mælifellsdal, ekki alllangt þaðan sem prestur hvarf frá manni sínum. Þá gerði á hann stórhríð svo hann villtist vegar og kom ekki áfram sauðunum og sá ei annað sýnna fyrir en að hann mundi þar úti verða að liggja og missa bæði féð og lífið með því bylhríðin stóð beint af bænum í fang honum. Og er hann hefir þannig beðið um hríð og féð tók að hrekja og slíta úr höndum honum, þá kemur þar til hans maður ungur og vænligur og kveður hann vinliga og spyr ef hann vili þiggja lið af sér til að komast með heilu og höldnu (ᴐ: fé og fjöri) til heimilis síns. Hinn lézt það feginsfús þiggja vilja og beztu þökk fyrir kunna. Þá mælti aðkomumaður: „Það mundi móðir mín vilja að ei léti ég son föður þíns verða úti dauðan nærri byggðum vorum og skal að vísu duga þér.“ Síðan tekur hann tvo sauðina sinni hendi hvern og gengur fram fyrir sauðahópinn og biður hinn þar eftir reka forystusauðinn og svo hina. Hann gerir svo, en þessi gengur undan og leiðir sinni hendi hvern sauðinn, og greinir ei meir um ferð þeirra unz þeir koma að sauðahúsum á túnvelli. Hjálpar aðkomumaður honum þá að hýsa og byrgja sauðina, en að því búnu býður sauðamaður honum heim. Hinn segir: „Ganga mun ég heim með þér til húsa svo ég viti þér fullborgið, en ei mun ég náttdvöl hjá þér eiga og mun móðir mín vilja mig aftur sjá á þessi nóttu.“ Eftir það gengur hann heim til húsa með sauðamanni og er þá komið nær dagsetri. Sauðamaður gengur inn fyrir inn á baðstofugólf og kallar á konu að taka af sér hríðarhaminn; urðu allir mjög fegnir komu hans því menn örvæntu að hann mundi ná til byggða með féð; því þetta sama kveld urðu menn víða úti með fé sínu eða misstu það frá sér og náðu nauðugliga til byggða. Sauðamaður gengur þegar út aftur og vill bjóða inn komumanni, en hann var þá allur horfinn og sást ei meir. Eftir það segir hann föður sínum upp alla söguna og lætur hann þá uppi að fyri rúmum tuttugu árum hefði hann hjálpað huldukonu í barnsneyð (leyst kind frá konu) á þann hátt sem fyrr segir, og lét Skjóna mundi fyrir hafa verið sendan sér í þakkar skyni þessa handarviks. – Þá er ei lengri þessi saga.