Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Mókollur á Melabergi

Úr Wikiheimild

Mókollur er maður nefndur er einhvern tíma á fyrri öldum bjó á Melabergi fyri sunnan; hann var auðmaður. Í þann tíma fóru menn til Geirfuglaskers fyri Reykjanesi að fanga geirfugl. Hann fór eitt sinn með fleirum öðrum, en er þeir ætluðu burt brimaði sjóinn svo óðum að þeir gátu ekki að lagt; urðu svo frá að hverfa að Mókollur varð eftir. En er tími var til fóru menn aftur að vitja Mókolls og ætluðu að sækja lík hans, því öllum þótti auðsætt það hann mundi dauður vera, en er þeir komu til skersins var hann þar heill á hófi, hvað alla furðaði. Hann var þar svo að kona var hjá honum stödd, sú er honum hafði fulltingi veitt meðan hann var þar. Hún mælti vel til hans að skilnaði og sagði honum þar með að hún væri með barni hans og sagðist mundu færa það til kirkju, og bað hann þá annast það, koma því undir skírn, en ef hann brygði út af því skyldi hann verða að hinu mesta illhveli og steypast í sjóinn og aldrei úr þeim álögum komast. Því næst hvarf álfkona þessi, en þeir héldu burt frá skerinu.

Að hæfiligum tíma hér frá liðnum, einn fagran veðurdag að embættistíð yfirstandandi, sást vagga fyri kirkjudyrum á Hvalsnesi og var þar um messuna. Presturinn sá vögguna og spurði eftir hvert enginn vildi annast um að koma barninu undir skírn. Hann spurði þrisvar eftir því, en enginn gaf sig fram. Þessu næst var áklæðið af vöggunni gripið og snarað inn í kirkjuna með þeim orðum að ekki mætti presturinn (ᴐ: kirkjan) gjalda; það var af þeim dýrindis vefnaði að það var lengi síðan haft fyri altarisklæði þar;[1] — og jafnsnart hvarf vaggan, en Mókollur hljóp út undan messunni og landnorður um þverar heiðar og fram á Hólmsberg og fram á snös þá er síðan er kölluð Stakkssnös. Þá féll þar úr berginu með honum klettur sá er Stakkur heitir og stendur hann þar afar hátt úr sjó upp. Varð hann þar að hvali og lagðist upp beina leið í Hvalfjörð og varð mörgu skipi að tjóni.

Í þann tíma bjó gamall karl í Katanesi. Sá átti tvo sonu, fríska og hina mestu sjósóknara. Þeir réru jafnan tveir einir á áttæring í fremstu fiskileitir á Hvalfirði. Þennan áttæring gleypti þessi hvalur að karlinum ásjáandi með báðum sonum hans. Sá karl var margkunnandi og forn í skapi, þar með skáld mikið og ákvæðasamt. Hann gekk fram að sjónum og sté á stein nokkurn, stakk staf sínum í sjóinn og þuldi yfir honum fræði sín og kvað hvalinn upp í fjarðarbotninn og undir hæðir þær er kallaðar eru síðar Skjálfandahæðir, og kom hann upp í heiði í vatni því er síðan er kallað Hvalvatn og Hvalfell þar fyri norðan, og sáust þar lengi hvalbein síðan. Í honum fundust áttæringar tveir á hvolfi mörgum öldum síðar.

  1. Það hið sama skyldi hafa verið þar á öndverðri 19. öld, þá orðið upplitað og fornt. [Hdr.]