Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Magnús litli á Eiði

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Jón nokkur sem fyrrum bjó að Eiði hjá Gufunesi fyrir sunnan átti tvo sonu; hét annar Magnús er síðar varð lögregluþjónn í Reykjavík, en hinn Erlendur er kallaður var smiður og var nokkur ár hjá síra Páli á Undirfelli.

Þegar Magnús var á fjórða árinu fór hann eitt sinn með móður sinni á berjamó upp í heiði sem þar er svo kallað. Syfjaði drenginn mjög á berjamónum svo að móðir hans lagði hann á hempu sína og sofnaði hann þá skjótt. Gekk hún síðan spölkorn frá og tíndi ber um hríð. Því næst vitjaði hún barnsins; var það þá allt á brott. Verður henni mjög hverft við þetta; leitaði hún sjálf lengi um daginn, en til einkis. Fór hún þá heim og var þegar safnað mönnum til að leita barnsins. Var þá leitað það sem eftir var dagsins og fram á nótt árangurslaust. Síðan var leitað daginn eftir og allt fór á sömu leið. En í hálfrökkri sást drengurinn sitja á grastó framan í ógönguklettum svo að síga varð eftir honum. Drengurinn var þegar spurður hvernig hann hefði þangað komizt og kvaðst hann hafa gengið eftir móður sinni unz hún hefði hvorfið inn í einhvern bæ og hefði hún verið þar litla stund. En honum þótti sem móðir konunnar hefði því valdið að hann var þangað settur sem hann var.