Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Magnús pólití

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Fyrr meir var hér í Reykjavík lögregluþjónnn sem Magnús hét og var ávallt nefndur „Magnús pólití“. Hann ólst upp á einhverjum bæ austur í Þingvallasveit. Þegar hann var vel á fót kominn stóð svo á einu sinni að hann var eitthvað að ganga úti við á bænum. Heyrðist honum þá eins og vefur væri sleginn og í sama bili sýndist honum hann vera staddur fyrir bæjardyrum nokkrum, heldur reisulegum. Honum þótti bærinn líkastur Þingvallastað því þangað hafði hann komið nokkrum sinnum til kirkju, en þó þykir honum þar sumt hvað nokkuð annarlegt. Hvort sem honum hefur nú komið til hugar að þetta væri ekki með öllu einleikið eða af því að hann hefur orðið hræddur að vera kominn svo langt heiman að frá sér og bæði vantreysti sér og kveið fyrir að komast heim aftur varð honum það eitt til úrræða að hann hrein upp yfir sig hástöfum. Kom þá kona til dyranna, heilsaði honum vingjarnlega og bauð honum inn. Hann þáði það, en ekkert vildi hann annað af henni þiggja þó konan vildi láta undur vel að honum og gerði gælur við hann og byði honum allt sem hún hafði fyrir hendi, bitaði fyrir hann fisk með sméri ofan á og lét það í öskju, köku og smér, skyr og rjóma, sykur og sitt hvað fleira. En það dugði ekki; drengurinn vildi ekkert af henni þiggja né þýðast hana, en stóð alltaf á öndinni af hljóðum og óelju. Þegar konan sá að hann vildi með engu móti láta huggast fór hún með hann og hengdi hann á skógarhríslu sem slútti fram af kletti út á Þingvallavatn og skildi svo við hann.

Nú er þess að geta að þegar fólkið á bænum sem Magnús átti heima á varð þess vart að hann var horfinn fót það allt að leita, en fann ekki. Loksins fann hann smali einn eftir nokkra daga þar sem hann hékk á skógarhríslunni eins og álfkonan hafði skilið við hann, úrvinda og hálfruglaður. Þegar drengurinn var kominn til sjálfs sín aftur sagði hann frá öllum þessum atburðum eins og hann ítrast mundi. Eftir það lærði Magnús og varð stúdent og voru honum margir hlutir vel gefnir; en þó er það haft eftir honum að hann hafi sagt að sér fyndist sér ávallt einhvers varnað fremur en öðrum mönnum og vildi hann kenna það þessum atburði.