Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Marbendill, sjódvergur
Marbendill, sjódvergur
Gamall málsháttur einn hér í landi er so sem margur segir í dæmisögum: „Þá hló marbendill.“ En hvar af það er komið hefur sagt verið að bóndi nokkur dró upp þann sjódverg sem sig nefndi marbendil, með stóru höfði, höndum síðum, en líkastur sel niður frá nafla. Hann vildi á öngvum vísindum fræða bónda; því flutti hann hann nauðugan í land með sér. Bóndans hústrú, ung og lystug, kom til sjóvar, fagnaði bónda, kyssandi og klappandi. Bóndi gladdist og lagði henni prís og lof, en sló sinn hund frá sér sem honum fagnaði með hústrúnni. Þá hló marbendill er hann sá þetta. Bóndi spurði því hann hló. Marbendill svaraði: „Að heimskunni.“ Sem bóndinn gekk heimleiðis frá sjónum rasaði hann og datt um þúfu nokkra. Hann bölvaði þúfunni mikillega og hvar fyrir hún hefði nokkurn tíma verið sköpuð að standa í sínu landi. Þá hló marbendill því hann var í ferðinni nauðugur borinn og sagði: „Misvitur ertu bóndi.“ So hélt bóndi marbendil hjá sér þrjár nætur. Kaupmannasveinar komu þar með varning til sölu. Bóndi hafði aldrei fengið so margsólaða og þykka svartaskó sem honum líkaði, en þessir kaupsveinar þóttust hafa þá beztu. Bóndi mátti velja af hundrað pörum og sagði þá strax slítast og alla of þunna. Þá hló marbendill og sagði: „Margur villist þó vís þykist.“ Hvorki fékk bóndinn af marbendli með blíðu eða stríðu meiri fróðleik en nú var greint utan með þeim skilmála að bóndi skyldi flytja hann út aftur rétt á það sama mið sem hann var uppdreginn, og skyldi húka á árarblaði bónda, þá skyldi hann úr leysa öllum hans spurningum, en með öngvum kosti elligar. Bóndi gjörði og so eftir þrjár nætur. Og sem hann var kominn á árarblaðið spurði bóndi hvörn tilbúning fiskimenn skyldi hafa ef þeir vildu fisknir vera. Marbendill svaraði: „Tuggið járn og troðið skal til öngla hafa og setja önglasmiðju þar sem heyra má til ár og til lár (sjóar og vatns nið) og herða öngul í jóra mæði, hafa gráan griðungsvað og hráan hrossskinnstaum, til beitu hafa fugls fúarn og flyðrubeitu, en mannskjöt í miðjan bug, – og muntu feigur ef þú ekki fiskar. Fráleitur skal fiskimanns öngull.“
Þá spurði bóndi að hvörri heimsku hann hefði hlegið þegar hann lofaði hústrú sína, en sló hundinn. Marbendill svaraði: „Að þinni heimsku, bóndi, því hundur þinn elskar þig öngvu síður en líf sitt, en kona þín vill þig dauðan og er hin mesta hóra. En þúfan sem þú bölvaðir er þín féþúfa, og nógur ríkidómur undir; því varstu misvitur, bóndi, því hló ég þar að. En svartaskórnir duga þér þína ævi því þú átt ekki marga daga eftir ólifað; þeir duga þér þá þrjá daga.“ Og í því steyptist hann af árarblaðinu, og skildi þar með þeim. En allt reyndist eftir því sem marbendill hafði sagt.
Oft leysir hann öngla af fiskimönnum þar sem hann býr nærri miðum utan í kross liggi hnúturinn, og mörgum öngli náði hann af mér forðum.