Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Margrét í Ási

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Kona er nefnd Margrét er fyrrum bjó að Ási í Hegranesi. Bóndi hennar er Björn nefndur. Eitt sinn fór Björn og kona hans til kirkju á jóladaginn og margt fólk annað. Áttu menn að sækja kirkju að Rípi (sem nú). Þar er eftir eylendi að fara og lögðum vötnum. En þegar eftir messu fór Margrét heim til sín undan öllum öðrum því að henni leiddist mjög. Hún var ríðandi. Skömmu síðar fór heim[a]fólkið frá Ási heimleiðis eftir slóð hennar. Sér þá fólkið að þegar Margrét hefir verið komin norður á mitt Ásvatn hefir hún snúið þvert af leiðinni til austurs. Tveir menn hinir röskustu voru til fengnir að leita Margrétar. Röktu þeir lengi sporin og náðu henni loks austur undir Brekknaás. Þeir sá[u] mann einn fara fyrir henni, en hann hvarf þeim þá þegar. Þeir spurðu hana hvert hún hefði ætlað að fara, en hún kvaðst hafa ætlað heim með bónda sínum er hefði gengið á undan sér og væri hún komin að vallarjaðrinum, en bærinn væri skammt fyrir ofan. Tóku þeir þá í tauma á hesti hennar og leiddu hana heim að Ási. Var þá sem hún raknaði af svefni og sá hún að þetta höfðu verið missýningar einar.