Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Melabergs-Helgi
Melabergs-Helgi
Bær sá er á Suðurnesjum er heitir á Melabergi. Þar skyldi eitt sinn hafa búið ekkja með þremur sonum sínum og er ekki ljóst hvað tveir hétu, en einn muni heitið hafa Helgi; hann var fyrir þeim bræðrum.
Þá var tízka að fara til útskerja í fuglveiðar, einkum í Geirfuglasker, en þar var mjög brimasamt. Eitt vor tóku þeir bræður frá Melabergi sig til og réðu sér menn til ferðar úr Romshvalanesshverfi og fóru til Geirfuglaskerja. Þeim varð illt til fengs og fóru því í fleiri sker. Eitt sker var þar laust við og var brött hella sem lent var við og illt að halda. Þeir lögðu þangað og komust upp. Helgi frá Melabergi fór lengst. En er minnst varði brimaði og náðu menn skipi með harðfylgni utan Helgi; elti fugl og gáði sín ekki. Hleypti skipið frá, en gat með öngvu móti komizt að aftur so þeir kusu [að] forða sér, en skildu Helga eftir.
Hélt skipið nú til lands, og vonuðu að sér gæfi til skersins annan dag, en það fórst fyrir og var Helgi af talinn. Leið svo þar til vorið eftir; kom þá veður og færi til fuglaskerja og fór þetta hið sama skip. Það fór að skerinu er Helgi varð eftir í og hugðust þeir vita vilja hvurt þeir fyndi ekki bein Helga eður þá nokkuð fata, en þeim brá heldur er þeir sjá Helga þar lifandi, og ber fugl nægan er hann hafði veitt fram á helluna. Þeir leggja þá að, en hann heilsar á þá og bað ferma skipið sem hraðast þar hann kynni brima. Þeir hlóðu nú skipið og lögðu frá og Helgi með. Bræður hans fögnuðu hönum vel og spurðu tíðinda og hvursu hann hefði lifað um veturinn. Hann talaði fátt um, en sagði sér hefði liðið vel og hann hefði verið hjá konu einnri. Ekki er getið fleiri manna. Halda þeir nú til lands og fer Helgi heim til móður sinnar. Skerið var síðan kallað Helgasker.
Þetta sama sumar og ei alllöngu eftir að Helgi kom í land bar so til á sunnudegi í góðu veðri við Hvalsnesskirkju að þegar er prestur kom í kirkju stóð ungbarnsrugga á kirkjugólfinu; en allir létu sem sér kæmi ekki við. Helgi frá Melabergi var jafnvel spurður hvurt hann vissi ekki til, því þetta þótti undarlegt, en hann bar af sér. Prestur spurði þá hvurt öngvum væri þægð í að barnið væri skírt, en allir þögðu. Síðan var tekið til messu og fram haldið allt þar til kom að útgöngusálmi. Kom þá vel búin kona í kirkjuna, greip dýrindis klæði er breitt hafði verið yfir rugguna og kastar innar á kirkjugólfið og sagði um leið: „Ekki má kirkjan gjalda, en Melabergs-Helgi veit að öll okkar orð skulu standa!“ Síðan hvarf hún og ruggan með. En á Helga kom eitthvurt fát, stóð upp og mælti: „Ill var Álfhildur nú. Átti ég þennan þunga með henni. Þá er ég fór úr skerinu sagðist hún færa það til kirkju hingað og skyldi ég láta skíra og þá mundi ég verða merkasti bóndi á Suðurnesjum, en ef ég brygði skyldi ég verða versta illhveli í sjó og bræður mínir steinar.“ Síðan gekk Helgi á stað og inn þvera heiði og fram af Hólmsbergi. Hafi þá, um leið hann stakk sér, fallið klettur úr berginu og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags. Bræður hans ætluðu heim og komust inn fyrir Melabergsá og urðu þar að steinum. Heita steinar þeir Bræður enn. Helgi segir sagan hafi orðið að hval og haft rauðan haus og því verið kallaður Rauðhöfði. Hann skyldi helzt hafa staðnæmzt í Hvalfirði og á fjarðarmótum Kollafjarðar og Hvalfjarðar. Hann var illur, elti skip mörg og drekkti sumum. Þá skyldi hafa búið prestur að Reynivöllum og átt tvo syni sem réru á bát og hafi Rauðhöfði drekkt þeim. Presti hafi þótt illt um syni sína, en verið kunnáttusamur og skáld gott, hafi því í ljóðum stefnt Rauðhöfða í vatn upp af Hvalfirði er síðan heiti Hvalvatn, og hafi þar mátt skoða bein hans til skamms tíma, en Melaberg hafi lagzt af fyrir reimleika og var í eyði lengi síðan. En klæðið sem var yfir ruggunni skyldi hafa verið haft fyrir altarisklæði á Hvalsnesi þar til slitið var, þá tekið í sundur og verið lengi til nokkuð af því og ei alllangt síðan eyðilagðist.