Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nátttröllið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Nátttröllið

Á einum bæ var það að sá sem gæta átti bæjarins á jólanóttina meðan hitt fólkið var við aftansöng fannst annaðhvort dauður að morgni eða æðisgenginn. Þótti heimamönnum þetta illt og vildu fáir til verða að vera heima. Einu sinni býðst stúlka ein til að vera heima. Urðu hinir því fegnir og fóru burt. Stúlkan sat á palli í baðstofu og kvað við barn eitt sem hún hélt á. Um nóttina er komið á gluggann og sagt:

„Fögur þykir mér hönd þín,
snör mín, en snarpa, og dillidó.“

Þá segir hún:

„Hún hefur aldrei saur sópað,
ári minn, Kári, og korriró.“

Þá segir hinn á glugganum:

„Fagurt þykir mér auga þitt,
snör mín, en snarpa, og dillidó.“

Þá segir stúlkan:

„Aldrei hefur það illt séð,
ári minn, Kári, og korriró.“

Þá er sagt á glugganum:

„Fagur þykir mér fótur þinn,
snör mín, en snarpa, og dillidó.“

Þá segir stúlkan:

„Aldrei hefur hann saur troðið,
ári minn, Kári, og korriró.“

Þá er sagt á glugganum:

„Dagur er í austri,
snör min, en snarpa, og dillidó.“

Þá segir stúlkan:

„Stattu og vertu að steini,
en engum þó að meini,
ári minn, Kári, og korriró."

Hvarf þá vætturinn af glugganum. En um morguninn þegar fólkið kom heim var kominn steinn mikill í bæjarsundið og stóð hann þar æ síðan. Sagði þá stúlkan frá því er fyrir hana hafði borið um nóttina, og hafði það verið nátttröll sem á gluggann kom.