Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nátttröllið í Skessuhala

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Nátttröllið í Skessuhala

Í fyrndinni bjó skessa í fjalli einu í afrétt Mývetninga er síðan heitir Skessuhali. Hún var nátttröll og er það eðli þeirra að þau mega ekki sól sjá. Verða þau því að vinna fyrir sér á nóttunni. Skessan gjörði Mývetningum mikið mein og þar á meðal var það að hún stal á nóttum veiði í Mývatni. Er svo sagt hún ætti nökkva lítinn og réri honum á vatnið, en bæri hann svo á baki sér til byggða sinna.

Það var eitt sumar að mikill var veiðiskapur á Strandarvog; var hann bezt veiðistöð við Mývötn og hefur jafnan verið. Lagði skessan það í vana sinn um sumarið að hún stal á hverri nóttu veiði á vognum og þótti Strandarbóndanum það hið mesta mein. Eina nótt síðla um sumarið var það að skessan ræðst ofan að vognum og ætlar eftir vana að veiða þar. En er hún kemur er bóndi fyrir og er að veiðiskap á vognum. Hún treystist ekki til að leggja að bónda því hann var við fjórða mann og ætlar að bíða til þess bóndi hefur lokið veiðiskaparstörfum sínum, en bóndi fer sér hvergi hart því hann veit hvað skessu líður, og líður svo fram undir morgun. Skessan gjörist heldur óþolinmóð, en vill þó ekki fara svo búin. Og er bóndi hættir veiðinni fer skessan til og dregur fyrir á vognum. En er hún hefur lokið því starfi heldur hún heimleiðis til byggða sinna, og sem hún er komin meir en á miðja leið heim að Skessuhala þá rennur upp sól. Er svo sagt að skessan léti þar niður nökkvann sem hún var stödd þegar sólin rann upp, færi sjálf upp í hann og allt yrði svo að steini.

Þessa sér nú glögg merki enn í dag. Nökkvinn stendur enn í brekku nokkurri sem liggur nálægt miðja vega millum Skessuhala og Mývatns og heitir hún Nökkvabrekka. Er nökkvinn að öllu lagaður eftir bátum sem nú brúkast til veiða á Mývatni nema hvað hann er allur stærri; má glöggt greina alla lögun hans og sér enn fyrir árunum og ræðunum; hafa það verið skörð í borðin, en ekki keipar eins og nú tíðkast. Í afturstafni nökkvans er hrúga ein mikil og halda menn skessan hafi þar lagt sig til hinnar síðustu hvíldar.