Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nennir

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Einu sinni var smalastúlka að leita að fé. Hún hafði gengið lengi og var orðin lúin mjög. Sér hún þá hest gráan[1] og verður fegin, hnýtir upp í hann sokkabandinu sínu, leggur svuntuna sína á hann, leiðir hann að þúfu og ætlar á bak. En rétt í því hún ætlar á bak segir hún: „Ég trúi ég nenni þá ekki á bak.“ Þá tekur hesturinn viðbragð mikið og stökk út í vatn eitt skammt þaðan og hvarf. Stúlkan sá nú hvers kyns var, að þetta var nykur, því það er náttúra hans að hann má eigi heyra nafn sitt, þá fer hann í vatn sitt, en hann heitir öðru nafni nennir, og því fór hann er hún sagði nennir. – Sama verður og ef hann heyrir sagt andskoti.


  1. Sumir segja brúnan. Þessi saga er mjög algeng og sögð um nykra í ýmsum vötnum.