Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nykur í Kumburtjörn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Nykur í Kumburtjörn

Fyrir kemur það að nykur er nefndur kumbur; hvort sem af því er dreginn Kumbravogur eða ekki, þá er þó af því dregin Kumburtjörn hjá Skarði undir Skarðsfjalli í Landsveit. Ýmist þar eða í öðru stærra stöðuvatni hjá Háholti á að vera nykur. Úr Kumburtjörn kom einu sinni graðhestur grár í aðra hesta og fyljaði meri eina; folaldið sem hún átti varð stór hestur og hinn mesti valsgripur, en aldrei mátti ríða honum mjög djúpt í vatni því þá vildi hann leggjast niður.

Sú er saga til þess að nykur sé ekki bundinn við hestlíki eitt saman að úr þessu sama vatni kom einu sinni grá kýr stór og troðjúgra. En er átti að mjólka hana varð þess vart að klaufirnar sneru öfugt á henni eins og hófarnir á nykrinum; vildi þá enginn við hana eiga, enda varð kýrin þá svo ólm að hún kramdi barn eitt fyrir bóndanum til dauðs og hvarf síðan.