Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nykur í glaðasólskini

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Nykur í glaðasólskini

Eitt sinn var maður á ferð um dagtíma í glaðasólskini og gekk inn dal nokkurn, en innarlega á dalnum var stöðuvatn. Þegar maðurinn var kominn framan til í dalinn þá sér hann hvar hestur, að honum sýndist grár að lit, koma innan eftir dalnum og kemur fram eftir á móti manninum og var þar engin hesta von. Maðurinn skeytir því alls ekki nema heldur áfram ferð sinni. Þegar þessi skepna sér það þá stanzar hún við og stendur þar. Maðurinn gekk so fram hjá og innar langt, en kom eigi til þessa því hann var huglítill til þess. Þegar á leið daginn þá lallaði það inn að vatninu aftur og stóð þar so lengi sem maðurinn sá til. Þetta var í þeirra tíð sem nú lifa.