Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Páll og Kjartan

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Maður réri suður, Kjartan að nafni. Formaður hans hét Páll. Þess urðu menn varir að endur og sinnum á næturþeli var gengið um sjóbúðina, en Páll bannaði að hafa orð á því. Á sumardagsnóttina fyrstu vakti Kjartan í rúmi sínu. Varð hann þess þá var að kvenmaður bláklæddur gekk inn að rúmi Páls. Spurði Páll hana þá hvort allir mundu sofa. Hún kvað þá eina vaka er sig gilti einu um. Töluðust þau síðan nokkuð við; síðan gekk hún út aftur. Að morgni lagði Páll undir við Kjartan að tala ekki um hvað hann hefði séð né gera leit né eftirgrennslan hvað sem í kynni að skerast. Nokkru síðar hvarf Páll og spurðist ekkert til hans.

Nú liðu þrjú ár sem Kjartan alltaf reri suður og sást þá oft ókenndur bátur róa í verstöðunni. Þriðja árið gekk Kjartan eitt kvöld sem oftar seinastur heim frá báti. Kom þá Páll til hans og sagðist nú vera giftur huldukonu. höfðingsmanns ekkju, og vera búinn að eignast tvö börn. Sagði hann fólk þetta vera kristið og hefði það líka búnaðarháttu og aðrir menn. Sagðist hann nú ekki mundu framar koma í manna augsýn. Svona sagði Kjartan frá.