Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Páll prestur vígir Heiðnabjarg

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Páll prestur vígir Heiðnabjarg

Í Grímsey var nokkur hluti fuglbjargsins nefndur Heiðnabjarg; lá það bak við Bása. Höfðu eyjarskeggar sögu um það að þá sigið væri í bjargi þessu kæmi grá hönd út úr bjarginu með sax og skæri festina. Liðu tímar því fram að engir áræddu að síga í bjargið til fuglveiða og var þó mikill fugl í því.

Þegar Páll prestur Tómasson var í Grímsey um 1830 vildi hann láta nota bjargið, en fékk ekki, að gjört væri. Bauðst hann þá til að vígja bjargið og var því vel tekið. Fer prestur nú að ákveðnum degi til bjargvígslunnar á brún þess og stofnar þar helgihald; vóru þar allir eyjarbúar með bjargfesti sína. Prestur vígir nú bjargið með söng og ræðuhaldi og máske vatnsskvettum á brún þess. En þá vígslunni er lokið býst hann sjálfur til að síga fyrstur niður og lætur hann binda sig í festina; var hann hempuklæddur og hefur í hendi stóran hamar, en þeim á bjarginu stóðu skipar hann að syngja sálma sem hann valdi til svo lengi sem hann væri í siginu. Fór hann svo niður í bjargið og brúkaði hamarinn til þess að melja steinabrúnir sem kynnu að geta skorið festina, en ekki sem hinir trúðu til að drepa bjargdrauginn. Prestur kom óskemmdur upp aftur, lét þá hætta söngvum og fara að síga í bjargið. Og óttaðist enginn gráu höndina lengur.