Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Prestahvarf í Grímsey

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þórður hét prestur einn í Grímsey forðum daga. Hann var oft vanur að hverfa og var stundum burtu nokkra daga án þess menn vissu hvað um hann varð annað en hann væri hjá huldufólki, en það var venja hans að gista aðra hvora jólanótt hjá huldufólkinu í Nónbrík, en aðra hvora í Ljúflingshól. Oft var það þegar aflalaust var við eyna að séra Þórður fór á stað og kom heim aftur með nýjan blautfisk og heilagfiski sem hann fékk hjá huldufólkinu. Fóru menn stundum á hnotskóg að gæta að hvert hann færi til þessara fiskifanga. Sáu menn þá að hann gekk út á Eyjarfót, en ekki sáu menn þá framar hvað af honum varð fyrri en hann kom aftur. Loks hvarf hann og kom aldrei framar í augsýn manna. Þóktust menn vita að hann hefði farið alfarinn til huldufólks.

Út á Eyjarfæti er mjór vogur sem liggur inn í hellir einn og halda sumir sá hellir liggi í gegnum þvera eyna og að í hellirnum búi ýmislegt óalmennilegt. Sumir héldu séra Þórður hefði þangað farið. Ekki er sjá[an]legt að komizt verði inn í hellirinn nema á báti. – Frá því er sagt um prest einn að hann var svo áræðinn að hann fór inn í hellir þenna rannsóknarferð á báti við fjórða mann og kom aldrei út aftur. Síðan er þetta kölluð Prestaskvompa.