Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Prestsdóttir gift huldumanni
Prestsdóttir gift huldumanni
Prestur einn á einhverjum stað átti dóttur gjafvaxta. Einu sinni varð tilrætt um huldufólk eða álfa; sagði þá dóttir prestsins: „Það gilti mig einu þó ég ætti álfamann, væri það vænn maður.“ Rak prestur þá dóttur sinni snoppung og kallaði hana óþarflega mæla.
En það var nokkru síðar að barn eitt á prestsgarði þessum sá mann ríða þar að bæjardyrum, stíga af baki, ganga inn og taka í hönd prestsdóttur, leiða út, setja á bak hjá sé og ríða í burtu. Eftir það var hennar leitað hvervetna er mönnum datt í hug, en enginn varð hennar var.
En sagt er að það yrði þrem vetrum síðar að fjármaður sá er lengi hafði verið með presti og hug hafði lagt á dóttur hans er hvorfin var villtist eitt sinn með allt féð; kom svo því kafald var á að hann missti frá sér allt féð; komst þó sjálfur að lyktum að bæjardyrum einum er hann kenndi ógjörla. Maður gjörvilegur stóð þar í dyrum frammi og bauð fjármanni gistingu. Kvaðst hann það þiggja mundi, en barmaði sér mjög um missi fjárins. Bóndi kvað eitthvað mundi til verða að finna það aftur. Fylgdi hann nú gesti sínum inn á baðstofuloft. Þar sá hann gamlan mann og gamla konu, en tvö börn léku sér á loftinu. Þar þekkti hann og prestsdóttur og þóttist vita að hún mundi kona bóndans er bauð honum gistinguna. Var honum veittur þar hinn bezti beini og fylgt að lyktum í húsrúm undir baðstofulofti. Þar kom prestsdóttir til hans og bað hann vera sér trúan og færa móður sinni frá sér gersemar nokkrar í skjóðu og segja henni þar með að bænir sínar mætti hún lesa á hverju kvöldi. Spurði fjármaðurinn hana þá hvort hún kæmi nokkurn tíma í kirkju. Hún kvaðst koma það jafnoft honum; ætti hún fremsta sæti undir prédikunarstól, en maðurinn sinn næst altari. Spyr fjármaðurinn hversu það mætti þá vera þá enginn sæi þau. Hún segir það til þess bera að þau fari jafnan úr kirkju á undan blessan. En þess bað hún hann sem innilegast að geta þess að engu er hann væri nú vís orðinn um sína hagi að öðru en skila móður sinni skjóðunni; því ella mundi hann mikla ógæfu af hljóta. Hét hann því.
En að morgni færði bóndi honum allt féð og hafði rekið það inn á hey um nóttina. En aftur fór hann í villu heim með féð; en það var örskammt að fara. Enti hann þá eigi betur heit sitt en svo að hann sagði frá því öllu sem gjörst er hann hafði orðið vísari í för þessari. Tók prestur þá það ráð að vara við sóknafólk sitt að bregðast ei ókunnuglega við þótt hann blessaði yfir söfnuðinn fyrri en venja væri til því freista vildi hann með þeim hætti að ná dóttur sinni, og er sagt honum tækist það; en fyrir bænastað hennar innilegan yrði hann aftur að sleppa henni því að hún teldi að ærin vandræði mundi ella hljótast, léti og maðurinn sinn sig svo vel að sér væri mestur harmur að missa ást hans. En talið er að fjármaðurinn yrði ógæfumaður mikill.
Aðrir segja að þegar prestsdóttir var tekin í kirkjunni sæti hjá henni bæði börnin, en maður hennar næði þeim og hyrfi á burt; en að prestsdóttir hafi sagt við fjármanninn er hún var tekin: „Fáðu hvorki kaun né kvef og komi þér aldrei hor í nef, og legg ég þó ei á þig sem þú átt skilið.“