Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Prestsdóttirin (2)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Prestsdóttirin

Eitt sinn bjó prestur á kirkjustað. Hann átti eina dóttur sem hét Guðríður. Menn urðu þess varir að einn piltur stóð oft hjá sæti hennar, en hún gjörði þar ekki orð á. Litlu síðar varð til einn piltur sem var fyrirvinna hjá móður sinni að biðja hennar; hann hét Guðmundur. Faðir hennar tekur því, en þess er ei getið að hún hefði nein mótmæli. En eftir því sem leið á haustið sáu menn að þessi fyrrnefndi piltur varð daprari, en kvöldið sem hún átti að fara alfarið að morgni kom sá dapri piltur sem vant var og mælti þetta fram:

1.
„Það er minn vandi þó ég standi
í þessum skugga,
mærðar bland af minnis landi
mun ég brugga
sérdeilis fyrir þig, sæmdin ungra fljóða,
lukkuna fáðu laukaskorðin rjóða.
2.
Kjóstu þér þann hinn kléna mann
á koddann mjúka
sem flestar dyggðir frúnni gjörir bjóða.
......[1]
sérdeilis fyrir þig, sæmdin ungra fljóða,
lukkuna fáðu laukaskorðin rjóða.
3.
Ríkari kanntu rekkinn fá,
mín rósin bjarta,
en öngvan þann þér svo vel ann
í sínu hjarta,
ungur mann aflar peninga nóga,
lukkuna fáðu laukaskorðin rjóða.
4.
Frelsarinn þinn sé huggarinn minn,
mín hýrust meyja,
og flytji mig inn í friðgarð sinn
þá fer ég að deyja;
kveð ég ei lengur mína tungu móða,
lukkuna fáðu laukaskorðin rjóða.“

Síðan gengur hann burtu mjög sorgbitinn. Að morgni kemur Guðmundur að sækja hana. En þegar hún kveður föður sinn fær hann henni lítið kver og segir henni það aldrei við sig skilja.

Nú ber so til þá er þau gift eru að Guðmundur maður hennar varð að ferðast í burtu en væntanlegur að kvöldi, og vakti hún eftir hönum og hefur sér til skemmtunar að líta á kver sitt. Að lítilli stundu liðni heyrir hún barið; hún gengur til dyra og lýkur upp, en kverið varð eftir á rúmi hennar. Hún sér öngan nema huldupiltinn sem tekur í hönd hennar og leiðir hana burt með sér; en upp frá því hefur hún ei sézt. En þá Guðmundur kom heim fannst hönum mikið um. Enginn vissi hvað af henni varð.

Einn morgun að þrem missirum liðnum þá faðir hennar kom á fætur sér hann líkkistu við kirkjudyrnar. Hann gengur þangað, sér bréf liggja á kistunni til sín og hökul. Hann les bréfið, þar stendur í að þetta sé dóttir hans sem horfið hafi, og hafi hún dáið af barnsförum og beðið að grafa sig í þessum kirkjugarði, en hökullinn eigi að vera í legkaup. Að liðinni viku stóð þar önnur kista með bréfi til prests og sloppur fylgdi með. Í því bréfi var þess óskað að prestur græfi kistuna í kirkjugarðinum; því þar væri í barn dóttur hans er hún hefði alið áður en hún dó, og vildi faðirinn er bréfið var frá að barnið væri grafið hjá móður sinni, en sloppurinn skyldi vera legkaup fyrir líkið.

  1. Fjórðu hendinguna vantar.