Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Prestssonurinn frá Reykholti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Prestssonurinn frá Reykholti

Á prestsetrinu Reykholti í Borgarfirði var á einni tíð prestur sá af hvers syni þetta litla ævintýri gjörðist. Þessi prestur átti son og var hann frumvaxta þegar þessi frásaga skeði. Ekki er getið um nafn hans. Hann var vænn maður og vel að sér. En sá atburður varð á einum vetri að prestsson hvarf burt af bænum fyrir jól og var hann burtu um jólin og fannst ekki þó hans væri leita farið. Kunni þar enginn á að gezka hvað hann dveldi og vóru þar á ýmsar getur. En er jólin vóru liðin kom hann heim aftur, en engum vildi hann segja hvar hann hefði dvalið um jólin. Leið svo það eftir var vetrarins og svo sumarið og veturinn til jóla; varð þá hinn sami atburður að prestson hvarf og var heiman um jólin. Síðan kom hann aftur, en engum sagði hann að heldur hvar hann hefði verið. Einn bóndason þar úr nágrenninu sem var mjög kær vinur prestsonar lagði mikið kapp á að vita hvert hann færi um jólin á hverjum vetri og bað hann því ákaft að segja sér það eða lofa sér með honum um næstu jól og fyrir hans þráu bænir og þeirra mikla vinfengi lofaði prestsson honum að hann mætti fara með sér um næstu jól.

Leið svo tíðin allt að jólum, en aðfangadag jólanna bjuggust þeir heiman prestsson og bóndason og gengu leiðar sinnar þar til þeir komu að klöpp nokkuri. Þar klappaði prestson upp á og laukst þá kletturinn upp og kom út kona. Fagnar hún þeim vel og fylgdi þeim inn í klöppina; var þar ein kona fyrir og var sú yngri; fagnaði hún þeim einnin sæmilega. Fengu þeir sæti góð, en þegar bóndason fékk færi á spurði hann vin sinn hvernin lagað væri um þessar konur og híbýli þeirra. Sagði þá prestsson honum að þær væri huldukonur og væri sú eldri sýslumannsekkja og þó ekki gömul, en sú yngri væri dóttir hennar, – „og er þess ekki að dylja,“ mælti hann, „að ég ætla mér að giftast þeirri eldri og sef ég hjá henni þær nætur sem eg dvel hér. En þú verður að hvíla hjá hinni ungu stúlkunni og liggur þér mikið við að þú berir vel af og látir ekki á þér festa þó þér finnist það ónotalegt, því vegna þess að það er ekki eðlilegt að menn eins og vér hvíli hjá eða hafi mök við þetta huldufólk þá virðist oss mjög ónotalegt að samrekkja því eða koma við bert hold þess, en þetta er þó ekki nema þrjár nætur þær fyrstu sem maður sefur hjá því, svo hver sem endist til að hvíla hjá huldukonu þrjár nætur og lætur ekki á sér festa þó eitthvað þyki að vera, hann getur upp frá því haft eðlileg mök við hana svo sem hverja aðra mennska konu.“ Bóndason lét sér mundi þetta vel endast. Síðan þegar tími þókti til kominn báru konurnar á borð bæði vín og vistir, vóru það hinir beztu réttir, og settust svo til borðs með gestum sínum og snæddu þau svo og drukku saman um kveldið og vóru konurnar hinar snotrustu og liprustu í öllu og þókti þeim enn öllum vel að fara.

En er kvöldið var liðið og ganga skyldi að sofa tilreiddu konurnar rekkjur sínar og háttaði prestsson hjá hinni eldri konunni, en bóndason hvíldi hjá þeirri yngri, og sofnuðu hvorutveggju. En um nóttina vaknaði bóndason; þókti honum þá svo illt að sofa hjá jungfrúnni að hann hélzt ekki við í rúminu og fór á fætur þó fáir muni slíkt leika, en þó svona tækist nú illa til fyrir bóndasyni vóru þeir þar samt báðir um jólin í góðum fagnaði, en ekki þáði hann samt að sofa hjá stúlkunni sem þó flestir mundu kjósa enda þó hinni eldri líkaði það illa. Síðan eftir jólin bjuggust þeir félagar til heimferða, en er þeir vóru burt búnir sagði sú eldri konan við prestsson: „Óhappalega tókst nú til fyrir þér fyrst þú komst hingað með vin þinn að hann skyldi ekki bera gæfu til þess að eiga eða vera í kunningsskap við dóttur mína, en þó nýtur hann þín svo einkis ills vil ég óska honum, en samt mun hann aldrei yndi af konu hljóta.“ En í því kom sú yngri að og mælti að þau ummæli skyldu aldrei standa nema smám saman. Þá reiddist kella og sló dóttur sína kinnhest og kvað hana ekki hafa þurft að skipta sér af þessu. „Það skal þó standa,“ mælti hin. Síðan minntust þeir við konurnar og fóru svo heim til sín.

Leið svo af veturinn. En um sumarið fór prestsson utan, en áður hann færi sagði hann vin sínum fyrirætlan sína og kvaðst hann ætla sér að vera þrjá vetur utanlands. „En þegar ég kem aftur,“ mælti hann, „fer ég alfarinn til vinkonu minnar og giftist ég henni þá.“ Síðan fór prestson utan um sumarið eins og hann hafði ætlað. En þegar hann var búinn að vera utanlands tvo vetur var það á einni nóttu að hann dreymir að huldukonan eldri, nl. vinkonan hans, kom að honum og var hún mjög aumleg og sorgbitin í bragði, en ekki talaði hún neitt og yfirhöfuð þókti honum draumurinn ónotalegur og varð hann mjög hugsjúkur af þessum fyrirburði og fannst sér allt á móti ganga úr því og fyrirtæki sín misheppnast; samt var hann þriðja veturinn utan. Síðan fór hann til Íslands og fann hann þá brátt vin sinn og sagði hönum af ferðum sínum. Fóru þeir og vildu hitta huldukonurnar. Og er þeir komu að klöppinni klappaði prestsson á hana, en þá var ekki upp lokið og honum ekkert andsvar veitt. Mátti hann snúa við svo búið heim aftur og þóktist sakna vinar í stað og varð hann mjög harmsfullur út af þessu öllu saman. En nokkru síðar dreymir hann að sú yngri konan kom til hans og sagði honum að unnusta hans, móðir sín, hefði andazt meðan hann hefði verið utanlands þegar hann hafði þar verið tvö árin, – „og því var ekki lokið upp fyrir þér þegar þú komst að klöppinni,“ mælti hún, „og ekki mátt þú fá að sjá mig því móðir mín bað mig fyrir að láta þig aldrei fá að líta mig.“ Síðan kvaddi hún hann og hvarf. En síðan er ei getið hvernin ævi þeirra vinanna framleiddist.